Gudbergsstofa 940x250 013

Pistill: Detroit fer á hausinn

Detroit fer á hausinn

Detroit, helsta stolt á uppgangstímum Bandaríkjadýrkunarinnar í heiminum með bílana í fararbroddi, er farin á hausinn. Ekkert virðist geta komið fallna guðinum til bjargar annað en málverk eftir fyrrum vesalinga á borð við Caravaggio, sem var ribbaldi, og van Gogh „sem seldi aldrei neitt“. Hann endaði ævina úti á akri með málaratrönurnar. Strákar skutu þar vitleysinginn að gamni sínu. Það var „ekkert mál“ fyrir en einni öld eftir atburðinn að sannleikurinn kom í ljós. Málarinn var talinn einskis nýtur á andlega sviðinu hvað þá á hinum veraldlega fjármálamarkaði.

   En hvaðan eru dýrmætu málverkin í listasafninu í Detroit komin eftir Caravaggio, Rembrandt og van Gogh, verk sem eru metin á 2,5 miljarða dollara og eiga að bjarga næstum heilli borg og hefja hana upp úr svaði og rúst bandarísks samtíma?

   Þau eru líklega frá auðmönnum, „glæpamönnunum í Wall Street“ sem okkur var tíðrætt um í sannleiksást sósíalismans úr háborg réttlætisins í Keml. „Glæpamennirnir í Wall Street“, sem Einari Olgeirssyni var svo tíðrætt um á Alþingi, hafa verið af meiri „stærðargráðu“ en hinn nú fyrirlitni Björgólfur Guðmundsson „Landsbankaglæpon“. Hann var samt svo stórtækur í anda og athöfnum (þótt lítilsigldur væri að margra mati) og mikill „á okkar mælikvarða“ að hann reisti undirstöðu Hörpu með „glópsku“ sinni. Hver annar hérlendur auðmaður eða kona hefði staðið að smíði húss á borð við Hörpu? Hún átti að vera óperuhús en ekki hæli fyrir bílskúrahljómsveitir. Í stuttri tímans rás sögu sinnar minnir hún orðið á heimilislega ruslakompu sem er full af skúringatuskum og skrúbbum undir mjóum menningarstiga. Þarna virðist vera hægt að sameina allskonar drasl og dót undir stjórn og í anda sjálfumglaðrar heimavinnandi húsmóður sem veifar svuntunni í fjölmiðlum. Eflaust hefðu engir nema Björgólfur Guðmundsson og Katrín Jakobsdóttir getað reist Hörpu á háum hugsjónum andstæðra stjórnmálaskoðana. Minni karlar og konur hefðu í mesta lagi smíðað með sínum smáíbúðahverfisanda lítið Mömmuhús við höfnina með útsýni til Esjunnar fyrir krakkagemlinga til að góna á meðan þeir gæða sér á nammi milli frekjukasta.

   Það er víst engin spurning að svikulir peningamenn í bílaiðnaði, en ekki heiðarlegir og hreinlyndir prestar með réttlætiskennd í bandarískum kirkjum, hafa keypt málverkin á uppgangstímunum í Detroit og gefið borginni sinni, einmitt þegar hinir rassprúðu bílar, drekar og drossíur með þúsund ljósum og krómuðu skrauti að framan og aftan brunuðu um malarvegi á Íslandi og jusu undan sér möl á beljur og rollur við vegakant í sveitum og báru þannig Bandaríkjunum vitni. Drekarnir breiddu ákaft út kanadýrðina þannig að enginn heilvita maður á Fróni varð „kjaftstopp“ í lofsöng sínum um hana.

    Við þetta er því að bæta, háværu fólki til íhugunar, að til þess að skapa auðlegð, hvort sem hún er efnisleg eða andleg, þurfa að vera hæfileikar á sem flestum sviðum og það er eðli hæfileika að skapa auðlegð. Ef hátt skal reisa hallir og þjóðfélög nægir ekki að hafa „réttlætiskennd“ sem hefur þann eina tilgang í tilveru sinni að sækja gjammandi og heimtufrek í garð auðsins sem hún er ófær um að skapa sjálf í Detroit dusilmenna samtímans.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Árásir á skóla

Árásir á skóla

Í fréttum í dag er dæmi um siðleysi tengt skólastúlkunni sem varð fyrir árás í heimalandi sínu. Þar segir: „Samkvæmt ársskýrslu Sameinuðu-Þjóðanna var á fyrra ári ráðist á 115 skóla í Malí, 321 skóla á herteknum svæðum Palestínumanna, 167 í Afganistan og 165 í Yemen. Þá var iðulega ráðist á skóla í Pakistan heimalandi baráttukonunnar ungu Malölu Yousafzai.“

   Siðleysið felst í því að bara eru taldar árásir á skóla í löndum utan „vestrænnar siðmenningar“ helst í löndum múslima og að þetta skuli koma frá Sameinuðu-Þjóðunum. 

    Í öllum löndum eru gerðar árásir á skóla. Hérna felast þær í því að rúður eru brotnar, tölvum stolið og allt rifið. Í Bandaríkjunum, auk annarra brota, er skotið á nemendur og kennara. En hvorki Íslands né Bandaríkjanna er getið í skýrslu Sameinuðu-Þjóðanna. Þetta er kannski ekki vísvitandi fölsun heldur „mannleg mistök“ en þau gætu ýtt undir fordóma í garð trúarbragða og landa þar sem andstaða er einkum gegn menntun stúlkna. Hún var áður hér og á vesturlöndum, líka stráka og jafnvel skólagöngu. Strákar áttu að vera á sjónum eða við sveitabúskap og í sjávarþorpum var algengt að drífa krakkana kauplaust úr skóla í fiskinn „til þess að bjarga aflaverðmætunum“ fyrir þjóðina. Að öðrum kosti færi „útgerðin á hausinn“.

   Munurinn á árásum á skóla “hérna og þarna“ er sá, að þeir sem brjóta, bramla, stela og drepa hér á vesturlöndum hafa allir notið lærdóms, samt ráðast þeir á skóla og kennara sína, en í hinum eru þeir væntanlega „ómenntaðir arabar“.

   Vert er að gleypa ekki algerlega gagnrýnislaust við fréttum þótt frá Sameinuðu-Þjóðunum og BBC komi.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Kæru landar

Kæru landar

Mikið verður rætt á næstunni af stjórnmálafræðingum og andlegum ættingjum þeirra, sagnfræðingum og blaðamönnum, um síðustu „ákvörðunartöku“ Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Þá mun „sitt sýnast hverjum“ eins og í umræðum hárra og lágra hér á landi. En meinlausar og beinlausar verða niðurstöðurnar, enda rétt að fara með gát í öðru en að gapa stórt. Ástæðan er sú að menn fylgja foringja skilyrðislaust að ákvörðunartöku lokinni, þegar hann segir mjölkisulega „að mestu máli skipti að víðtæk sátt náist með þjóðinni“. Orðalagið er þannig ef um karl er að ræða en kona mjálmar: „Nú skiptir mestu máli að stilla saman strengi.“ Þetta er munurinn á orðalagi karla og kvenna í valdastöðu hérna megin grafar á Íslandi. Með slíku „snilldarbragði í málnotkun“ leiðtoga í lýðræðisríki er hann laus allra mála. Hann þvær hendur sínar og vísar „framhaldinu til visku þjóðarinnar“ sem hann trúir á og er ekki að krossfesta hana heldur bjóða henni að vera sinn eigin frelsari. En þjóðin lufsast áfram með enga lausn „í farteskinu“. Um hvað er hún þá að kjafta? Hún rausar bara í rigningunni eða safnast saman í mesta lagi á undirskriftalista sem „nægja til þjóðaratkvæðagreiðslu“ eða til einskis nema haninn á Bessastöðum þurfi að gala og vagga stéli við að kroppa í sig fyrir framan kjúklingana eða eins og segir í Íslendingasögu sem samtími okkar ætti að skilja: „Það var siður konungs að eta einmælt. Var fyrst borin vist fyrir hann, sem von var, og var hann þá jafnan mjög mettur þegar vistin kom fyrir aðra. En þá er hann var mettur, klappaði hann með hnífskafti sínu á borðið og skyldi þegar ryðja borðin og voru margir þá hvergi nærri mettir.“ Þannig var um konunginn og liðið hans, en það náðist jafnan víðtæk sátt þegar gengið var saman um götur. Svo mun líka verða eftir að leiðtogi okkar leysti málið sem kom upp á borðið til hans varðandi „matarkistu okkar allra í sjónum“. Hann gerði það af stjórnvisku sinni, að eta einmælt. Mörgum finnst þó ráð hans yfirleitt vera vindhanaleg, öðrum að hann sé jafnan í „mótsögn við sjálfan sig“ en fleirum að eðlilega fari saman snúningur vindhana og mótsagnir í rokarassgatinu hér. En skyldi horgrindin hvað varðar hagsmunamál heimilanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fitna núna á fordæmi Ólafs Ragnars Grímssonar eða verða örlög hans þau sömu og Jóhönnu Sigurðardóttur sem lofaði að „slá skjaldborg um heimilin í landinu“ en féll úr stjórnmálum eins og valkyrja með blóðnasir?

   Svari nú hver frjáls maður fyrir sjálfa(n) sig þótt svarið verði til einskis.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Evrópsk vesæld og undirgefni

Evrópsk vesæld og undirgefni

Það var engin tilviljun að Evo Morales, forseti Bólivíu, var kyrrsettur á flugvelli í Vínarborg á heimleið frá þinghaldi með öðrum leiðtogum í Moskvu. Ef marka má fréttir frá heimalandi hans kröfðust Bandaríkin þess að hann skilaði þeim Snowden, sem kom upp um njósnir þeirra. Það er ekkert nýtt að bandarísk stjórnvöld gefi sér ýmislegt eftir sinni hentisemi. Að sjálfsögðu komu þau í þessu máli ekki beint að atburðinum heldur beittu fyrir sig hálfnýlendunum í Evrópu og létu þær banna flug forsetans yfir löndum sínum. Krafan er sérstæð og hlýðnin furðuleg, vegna þess að Snowden hefur sannað fyrir skömmu að Bandaríkin njósna um allt í löndum Evrópusambandsins. Yfirgangurinn og undirgefnin eru samt á vissan hátt eðlileg í sögulegu samhengi: frá síðustu heimsstyrjöld, en einkum í kalda stríðinu og í samtímanum, hafa þjóðir Evrópu lokað augunum fyrir því að bandarískar herflugvélar fljúga, leynt og ljóst, um lofthelgi þeirra með gereyðingarvopn og réttlausa fanga til geymslu án dóms og laga á öruggum stöðum víða um heim. En fram að þessu hafa bandarísk stjórnvöld ekki heimtað að forseti lýðveldis verði kyrrsettur og leitað í flugvél hans að manni sem þau ákveða af eigin geðþótta að leynist þar. Kannski er ekki furða að Spánn hafi orðið við kallinu, Bólivía var spænsk nýlenda og síðan undir bandarísku eftirliti sem studdi þar einræðisherrana. CIA drap Che Guevara í Bólivíu, reyndar með sovétaðstoð. Leynilögreglan hefði ekki fundið hann án Taníu, fölsku skæruliðakonunnar sem var send til þess úr einu af hinum svonefndu Alþýðulýðveldum. Andi gömlu nýlenduveldanna og samtímans er ekki úr sögunni. Bandaríkin eiga bágt með að sætta sig við þá staðreynd að löndin í Suður Ameríku eru að mestu laus úr böndum auðhringa þeirra. Og ekki er langt síðan að konungur Spánar sagði þjóðhöfðingja Venesúela, Hugo Chavez, að halda kjafti og þegja eins og landið væri ennþá spænsk nýlenda í eigu hans. Annað skiptir einnig og meira máli hvað Morales varðar: Obama vildi koma þegnum sínum á óvart og hressa andlegt ástand þeirra með pólitísku kraftaverki, handsama Snowden í flugvél Morales og veifa dólgnum og föðurlandssvikaranum sem sigurtákni heimslögreglunnar á þjóðhátíðardaginn. Hann er í dag, 4. júlí. Kænska kanaleiðtogans brást og það er óhætt að segja að lokum í þessari grein, að fátt er ömurlegra en heimsveldi að falli komið en heldur samt að það standi teinrétt, stutt af evrópskri nútímavesæld og undirgefni.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Eygló á Alþingi

Eygló á Alþingi

Það verður ekki annað sagt um stjórnmálamenn en það að þeir eru mannlegir á sérstakan hátt, þann sem varðar þá sjálfa þegar þar að kemur að mat er lagt á sérhæfð og vandasöm störf þeirra og niðurstaðan er sú að þeir hafa ekki „staðið sig í stykkinu“. Ef upp um þá kemst eru viðbrögðin þau sömu og venjulegs manns eða prestsins sem varð það á að ruglast á flösku með lýsi og flösku með messuvíni. Afleiðingin var sú að foreldrar sem gengu til altaris með fermingarbörnum sínum skildu ekkert í bragðinu og gubbuðu undir kirkjuveggnum. Presturinn eltir hjörðina og sagði yfir ælunni sér til afsökunar: „Það er auðvelt að vera vitur eftirá en aldrei hefði ég trúað á mig, að ég mundi ruglast á þorskalýsi og þríhelgu blóði. Batnandi manni er best að lifa, ég bið alla presta að stilla saman strengi í því að greina lýsi frá dreyra Frelsarans. 

   Eftir fréttum að dæma hefur hin snjalla Eygló Harðardóttir lýst því yfir á Alþingi í ræðu, að næstum engin opinber stofnun sé undanskilin gagnrýni hvað varðar íbúðalánasjóð, þótt hann hafi fyrir daga hrunsins einungis verið í höndum stjórnmálaafla sem stóðu að því en sungu samt á loforðanótum fyrir nokkrum mánuðum sama sönginn, svo kát og létt þjóðin kaus þau á ný.

   Nú eru nýir tímar á Alþingi með unglingafjölda og Eygló vill að grænjaxlar og gamla liðið læri af reynslunni. Það er óvitlaust á þessu stigi málsins að krefjast varfærni, svo almenningur geri sér grein fyrir að hann kaus fólk sem verður vitrara með hverri nýrri ákvörðun. Til þess að allar takist með alþingissóma og endi á farsælan hátt er brýnt „að ná breiðri samstöðu sem mun nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem framundan er“. Eygló er orðsnjöll, frumleg í hugsun og laus við orðaleppa „og frasa“ í málflutningi. Fyrir bragðið er til mikils mælst af þessari framsóknarkonu. Hvorki verður af henni skafið né á hana logið að hún hefur bein í nefinu og lipra tungu í munninum fyrir neðan það, eins og næstum nafna hennar sem er núna á vegum Sameinuðu þjóðanna að leysa búrkur frá nefi á afgönskum konum til að gera þær sýnilega andlitsdjarfar og hreinlyndar á sama hátt og systurnar í norðrinu. 

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3