Gudbergsstofa 940x250 013

Pistill: Hammerskjöld og bandarískt hommahatur

Hammerskjöld og bandarískt hommahatur

Maður hefur árum saman verið að lesa í erlendum blöðum og tímaritum um dauða fulltrúa Sameinuðu Þjóðanna, Hammerskjölds sem fórst í flugslysi yfir Sambíu árið 1961. Í því máli er jafnan farið leynt sökum varúðar, hræðslu við sannleikann hjá NAS eða Bandaríska þjóðaröryggisstofnuninni, eins og hún heitir á íslensku. Nú er málið komið upp á ný vegna þess að við lifum á tímum hreinsana: „ekkert nema sannleikann“ eins og þulið er þegar kristnir valdamenn leggja hönd á Biblíuna og vinna heit, að fara aldrei með lygi. Á árunum kringum 1960 var sannleikurinn í vestrænu lýðræði á vegum Bandaríkjanna og fáir þorðu að efast um það án þess að eiga á hættu að vera úthúða sem kommúnistar og þeim sagt að fara til Síberíuvist í hinum „algóðu Sovétríkjum“.

   Að sjálfsögðu hafa fáir hér á landi vitað með vissu um örlög Hammerskjölds, slysið talið dularfullt og engin leið að finna ástæðuna fyrir því. Slysið var eitt af leyndarmálum sögunnar. Jafnvel bandarískar rannsóknir gátu ekki komist að neinni vissu, sem var fremur ótrúlegt, enda eru þær vísindalegar, nákvæmar og leiða til niðurstöðu. Aðrar voru getgátur eða unnar af getuleysi.

   Hvað sem íslenskum getgátum líður og fylgd við forysturíkið á sviði lýðræðis, þá heyrði maður umræður um dauða eða morðið á Hammerskjöld að minnsta kosti á Spáni hjá mönnum sem unnu á vegum Sameinuðu þjóðanna og höfðu jafnvel verið samstarfsmenn hans. Þetta voru útlagar úr Spænska borgarastríðinu, lýðveldissinnar sem gátu heimsótt ættlandið enda margir komnir með bandarískt vegabréf, suður-amerískt, breskt og jafnvel grískt. Svo þeir voru tryggðir gegn lögreglu einræðis í höndum Francos. Allar slíkar umræður fóru fram í þröngum hópum fyrrum útlaga sem höfðu snúið aftur heim en lét fara lítið fyrir sér, hálfgerðir útlagar í eigin landi eða einhvers staðar á milli föðurlandsins og þjóða sem höfðu veitt þeim vernd.

   Hjá Sameinuðu þjóðunum eða í tengslum við stofnunina unnu margir þannig menn, karlar og konur. Þegar komið var til föðurlandsins, sem hafði hafnað þeim, var engu líkara en fengið væri frelsi til opinnar umræðu, þótt í einræðisríki væri. Þetta var afar furðu- en eftirtektarvert fyrir þann sem þekkti ekki í raun þannig aðstæður, að gera sér grein fyrir að innan einræðis gæti verið meira frelsi en í lýðræði. Ástæðan var trúnaður, sameiginlegi óttinn, reynsla af ótta og ofsóknum sem þjappaði mönnum í hóp trúnaðarvina. Samstaðan var undir þessum merkjum: Annað hvort ertu með mér eða á móti mér. Þú verður að sýna hundslega tryggð og þögn. Þetta voru eins og trúarsöfnuðir sem ala með sér ofstæki sem er sprottið af skilyrðislausri ást á einhverju í ætt við hið guðlega. Slíkt traust er hvergi sjáanlegt núna nema innan íslams.

    Í bræðralagi spænskra útlaga, sumra í kjarna Sameinuðu þjóðanna, var altalað að Hammerskjöld hefði verið myrtur af bandarísku leyniþjónustunni, í tilbúnu flugslysi (þannig flugslys þekktust hjá Franco, Castro og fleirum) meðal annars vegna þess að hann var flokkaður sem „ótryggur“ laumuhommi og hafði meðal annars staðið að því að skáld, laumuhommi, fengi Nóbelsverðlaunin. Óttinn við kynvillinga var algengur á þessum árum. Stjórnvöld héldu að auðvelt væri að múta þeim, enda væri kynvilla vísir að svikum og öðru skaðlegu fyrir þjóðfélagið. Mesta hættan var að þannig menn kæmust í stór embætti eins og sendiráð, þar mundu þeir stunda njósnir fyrir Sovétríkin, þótt þau  fordæmdu villuna og gerðu menn haldna henni næstum því réttdræpa. Svona áttu kynvillingar í lýðræðisríkjum að vera, öfugsnúnir á borð við gyðinga; algerir öfuguggar! Í Bandaríkjunum voru þeir ekki það illa staddir að þeir væru beinlínis ofsóttir heldur fordæmdir. Þeim var til dæmis ekki, eins og gyðingum og svörtum, bannað að fara á veitingahús þar sem hvítir og gagnkynhneigðir gæddu sér á hamborgurum og kjúklingabitum.

   Um leyndarmál Hammerskjöld heyrði maður rætt á Spáni í þögulum hópum, oft kynvillinga. Hægt var að trúa þeim fyrir væntanlegum sannleika vegna þess að á Spáni voru þeir ofsóttir. Ef það komst upp um þá voru þeir sendir á „vissan stað“ í héraðinu Murcia og hneigð þeirra leiðrétt með ýmsum ráðum sem lögreglan, sálfræðingar og „sannar konur“ réðu yfir með karlmennskusprautum, svipum, raflosti í punginn og myndum af  kaþólskum samförum við holdmiklar konur.

   Nú eru hinir dularfullu spænsku útlagar löngu dánir sem töluðu um hið „einkennilega mál“ sem tengdist Hammerskjöld. En afkomendurnir hafa komist að því að feður þeirra voru laumuhommar hjá Sameinuðu þjóðunum og það hefur vakið áhuga fremur en fordóma, að vera undan kynvillingum, og þetta fólk hefur fiskað eftir sögum og  harmað það að hafa ekki verið þögulir hlustendur eða uppi á þeim tíma þegar „sannleikurinn um leyndarmálið“ var að finna hjá fáum útvöldum.

   Vissulega eru okkar tímar fábrotnir, án leyndar og launungar. Það er látið eins og lygasannleikurinn sé hið eina boðlega í fari fólks og þjóða. Jafnvel hinir áður skaðlegu kynvillingar eru bara sakleysislega samkynhneigðir, viðurkenndir af kirkjunni og koma hvarvetna fram skælbrosandi og hóflega leiðinlegir. 

 Guðbergur Bergsson

Pistill: Guðný Rósa í Hverfisgalleríi

Guðný Rósa  í Hverfisgalleríi

Það er enginn hægðarleikur sem Guðný Rósa Ingimarsdóttir hefur tekið sér fyrir hendur og leyst á sviði listar og sýnir afrakstur af dirfsku sinni með kyrrum hætti til 14. þessa mánaðar í Hverfisgallerí, Hverfisgötu 4, 101 Reykjavík. Hún hefur hætt sér út í það sem hægt er að kalla áhættuíþrótt í myndlist, að laða fram margvísleg blæbrigði forma og innihalds í næstum því einlitum verkum. Margir halda að þau geti ekki dregið að sér athygli og auga venjulegs manns, allt hljóti að vera sjáanlegt í einni sjónhendingu, að hér sé ekkert fyrir hann að skoða, hið mikla eða litla Ekkert hljóti bara að vera fyrir tilgerðarlega. Öðru nær. Áhorfandinn hverfur hér umsvifalaust inn í hina ýmsu tíma: fortíð, samtíð og framtíð. Hann sér mátulegar tilvísanir í gamlar hefðir, til dæmis handavinnu kvenna sem hekluðu dúka, en um leið svífur hugurinn með hjálp augans inn í endaleysi sem er jafnframt áþreifanleg nálægð. Myndirnar eru svipaðar að stærð, hengdar í sömu hæð á veggi svo áhorfandinn þreifar sig áfram með fætur og sjón uns fundið er hið erfiða jafnvægi í listinni. Hún er í mótsögn við óreiðuna í samfélagi okkar og í heiminum um þessar mundir. Ekki er handbragðið síðra en hið sjáanlega eða dulda. Og ofan á þetta bætist hljóðlátt skop; skopast er að formunum og litnum á fínlegan hátt sem er laus við listrænna tilgerð. Reyndar býður fíngerð list upp á tilgerð, þá tegund sem er vinsælt tískufyrirbrigði. Enda er tískan áreynslulaus, þægileg fyrir leiðitama en á allan máta prýðileg til að breyta til, þótt ekki sé nema breyting breytinganna vegna með svolítilli stílfæringu. Hér er ekki um slíkt að ræða. Hér er ekki smjaðrað fyrir sjóninni. Hér er ekki á ferðinni löngun til vinsælda. Hér er ekki verið að gefa listunnendum smávegis undir fótinn. Hér er ekki nýbökuð myndlistarkona með smekklegan lærdóm úr listaháskólanum, hinni úr sér gegnu og trénuðu akademíu nútímans; heldur hvað? Því er vandsvarað. Það er ógerlegt að gefa öruggt svar í listum við því sem er nátengt eðli og lífi okkar.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Kossar og kynvillingastælar

Kossar og kynvillingastælar

Á meðan lofsungna bændamenningin var einráð á Íslandi skrifuðu skáldin sveitasögur sem þjóðin skildi. Þá hófust metsölubækur gjarna á þennan veg: „Þegar Sigríður Ögmundsdóttir, hreppstjórafrúin á Hofsvöllum, reið í hlað á sýslumannssetrinu Stóru-Völlum kom maddama Jófríður Sædal fagnandi út úr bæjardyrunum og rak henni rembingskoss um leið og hún vatt sér fimlega af gæðingnum Mósa. Á eftir Sigríði sinni reið Ólafur Teitsson og hafði varla farið af baki Sóma þegar Magnús sýslumaður kom úr skemmu, kyssti hann blíðlega og bauð honum að skoða reipi úr hrosshári.“  

    Eftir að hafa lesið þennan texta liggur nútímamanni við að spyrja:

    Voru þarna á ferðinni tvær lesbíur og tveir hommar?

    Kynjafræðin mun skera úr um það þegar haustönnin hefst í HÍ.

   Gott og vel. Langt finnst þeim sem bíður en lærður eða ólærður gæti létt biðina og aukið lærdóminn með því að glugga í gömlu blöðin, Ísafold og Vörð, og lesa lýsingar á bændamenningu í fjárréttum þar sem góðglaðir smalar kysstust að lokinni fjallgöngur í faðmlögum undir torfvegg og grétu hástöfum eins og ofsóttir hommar nútímans en gátu risið á fætur til þess að pissa í hóp og krossleggja kristallstærar sprænur úr bústnum limum hjá löðursveittum gæðingum.

   Hvað hefðu siðsamir hommahatarar, Gylfar og Halldórar samtímans haldið hefðu þeir horft upp á karlmenn standa í faðmlögum við að kasta af sér vatni í krossins helgu mynd á meðan þjóðin var náttúruvæn og smalar og fjallkóngar lágu í jöfnu hlutfalli eftir gleðigöngu með sauðfé um ósnortin öræfi, hina mannvænu náttúru. Vissulega var þá á Íslandi fólk án leiðtoga sem setja landsmet ef ekki heimsmet í því að væla yfir að hafa orðið fyrir einelti í æsku en orðið samt þingmenn eða borgarstjórar á miðjum aldri. Einelti virðist vera forsenda fyrir mikilli upphefð. Þannig framafólk veður elginn linnulaust í fjölmiðlum án þess að nokkur þori að segja við skælandi skrípin:

   Haldið kjafti, helvítin ykkar!

   Væri þjóðin enn í náttúrubarnaflokki eins og forðum yrðu hér óþörf samtök á borð við 78. Enginn skápur var í landinu til þess að koma út úr frelsaður með folann fyrir augum hins umburðarlynda almennings. Hér væri ekki heldur kvennaathvarf til að brjóta áfengislögin með auglýsingum í fjölmiðlum um að þar sem lúbarðar konur eru hugaðar verði óspart veitt kampavíni á ofurverði og það án vínveitingaleyfis fyrir framan nefið á öllum löggunum á Lögreglustöðinni.

   Á stefnuskrá framsækna helmingsins af núverandi ríkisstjórn ætti að vera kjörorðið:

   „Aftur til náttúrulögmálsins í réttunum þar sem enginn ræfill runkar sér! Í því felst hin rammíslenska þjóðmenning.“

brezniew   Víkjum nú sögunni frá Íslandi til Rússlands sem losnaði fyrir skömmu undan oki kommúnismans. Í hinu nýfrjálsa Pútínlandi eru kossar fólks af sama kyni saknæmir. Fjölmiðlar okkar fordæma það. Stjórnmálaskörungar, hlutlausir sagnfræðingar og samkynhneigðir lausir við herðatré skápsins og sado-masochistar í leðurgalla, taka höndum saman í fyrsta sinn á heimsvísu og staðhæfa að kossabannið sé afturhvarf til ófrelsisins í Sovétríkjunum.

   En eru þetta haldbær rök í dómssölum?   Hvað með alla kommúnistakossa Honeckers hins austur-þýska og Brésnevs hins sovéska eða Honeckers og Gorbachofs? Lágu þeir í gullaldarbókmenntum okkar til þess að læra Honecker Gorbatschovrembingskossatækni? Hver veit! Íslenskar bókmenntir hafa löngum verið víðlesnar og vinsælar í heiminum. En ég spyr:   

     Af hverju taka Samtökin 78 ekki upp hanskann fyrir Honeckerkossana og bera í Gleðigöngunni myndir af körlunum? Væri ekki tilvalið að láta Pál Óskar Hjálmtýsson halda á fremsta borðanum með mynd af Honecker við að hamast á vörunum á Gorbachof í staðinn fyrir að leyfa Jóni Gnarr að stela senunni í upphlut án þess að Þjóðbúninganefndin segi varnarorð vegna vanvirðingar hans á skotthúfunni?

Guðbergur Bergsson        

 

Pistill: Hreinsunaræðið

Hreinsunaræðið

Eftir hrunið og „sukkið“ hefur hreinsunaræði gripið um sig, ekki bara hér heldur um heim allan. Réttlætiskennd og krafan um heiðarleika eru orðnar svo algerar hjá stjórnvöldum að hreinsanir Stalíns hverfa í skuggann hvað umfang varðar en eru ekki jafn mannskæðar. Hreinlætisæðinu fylgir mikill kostur: hreinsanir skulu vera gagnsæjar, glasnostaðar, þannig að „hugmyndafræðin“ á báðum sviðum er sótt til Rússlands fyrr og nú. Meðan á þessu stendur eru allir hræðilega varir um sig og vita ekki nema þeir fái „bréf frá huliðsheimum valdsins“ um að þeir hafi ýmislegt óhreint í pokahorninu og verði „kallaðir fyrir“.

   Hver er saklaus ef verðir laganna með hreinlæti „á oddinum“ sækja að okkur á öllum sviðum? Er alger heiðarleiki til hér á jörð? Varla. Kannski ekki nema hjá barni sem kemur nakið í heiminn og hefur ekki eignast neitt í lífinu nema hana mömmu sína. Svo fara menn að sjálfsögðu heiðarlega naktir til fundar við eiganda sinn á himnum.

   Gætið að því valdhafar, að ofhreinsanir geta leitt til glötunar sem sannaðist á Sovétinu og Bandaríkin hafa verið að hreinsa heiminn í áraraðir, en nú er svo komið fyrir þeim að þau hafa hreinsað sjálfum sér og heiminum til óbóta og fengið algerlega á sig drulluna. Ef þannig er komið fyrir þjóðum, stórum og smáum, þá tekur við það vandaverk að hreinsa af sér fyrrum hreinsanirnar sem er enginn hægðarleikur í stjórnmálum: skíturinn vex yfirleitt við skrapið í botn.

   Æðið hefur gengið svo langt í hringavitleysunni að Angela Merkel kanslari - ættuð úr Austur Þýskalandi þar sem Stasi ríkti með hreinsanir sem hún fordæmdi og flaug þannig í embættið - telur núna að njósna sé þörf til að verja ríkið gegn óvinum þess. Svo hvað á maður að halda, ef hreinsanir leiða til óþrifa og ósigra gegn drullunni og gagnsæi, glasnost, leiðir í ljós að lygin þrífst á sannleikanum og sannleikurinn nærist á lygi uns nýr lygasannleikur hefur göngu sína? 

   Að svo komnu máli er má spyrja saklausrar spurningar í tengslum við skólpið á Íslandi:

   Fór ekkert óhreint í tæru fljótin, sá enginn drullið fyrr en dólgarnir í Evrópusambandinu fóru að skipta sér af hreinlætinu á eyjunni jöklahvítu?

   Má ekki skólp frá heiðarlegu vinnandi fólki fara í vötn, sjóinn og fljótin? Lifðu laxar ekki sælu lífi á súru leysingum úr Guðna Ágústssyni sem á að hafa búið í glæsihúsi við bakka Ölfusár og sturtað hreinlega niður úr klósettinu, frjáls maður í frjálsu landi án erlendra boða og banna?

   Vissulega!

   En munnmæli herma að eftir að alþingismaðurinn seldi bústaðinn og það „hljóðnaði í pípunum“ hafi laxarnir í ánni mjólkurhvítu rýrnað undir roði og orðið lausir við hrygginn.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Detroit fer á hausinn

Detroit fer á hausinn

Detroit, helsta stolt á uppgangstímum Bandaríkjadýrkunarinnar í heiminum með bílana í fararbroddi, er farin á hausinn. Ekkert virðist geta komið fallna guðinum til bjargar annað en málverk eftir fyrrum vesalinga á borð við Caravaggio, sem var ribbaldi, og van Gogh „sem seldi aldrei neitt“. Hann endaði ævina úti á akri með málaratrönurnar. Strákar skutu þar vitleysinginn að gamni sínu. Það var „ekkert mál“ fyrir en einni öld eftir atburðinn að sannleikurinn kom í ljós. Málarinn var talinn einskis nýtur á andlega sviðinu hvað þá á hinum veraldlega fjármálamarkaði.

   En hvaðan eru dýrmætu málverkin í listasafninu í Detroit komin eftir Caravaggio, Rembrandt og van Gogh, verk sem eru metin á 2,5 miljarða dollara og eiga að bjarga næstum heilli borg og hefja hana upp úr svaði og rúst bandarísks samtíma?

   Þau eru líklega frá auðmönnum, „glæpamönnunum í Wall Street“ sem okkur var tíðrætt um í sannleiksást sósíalismans úr háborg réttlætisins í Keml. „Glæpamennirnir í Wall Street“, sem Einari Olgeirssyni var svo tíðrætt um á Alþingi, hafa verið af meiri „stærðargráðu“ en hinn nú fyrirlitni Björgólfur Guðmundsson „Landsbankaglæpon“. Hann var samt svo stórtækur í anda og athöfnum (þótt lítilsigldur væri að margra mati) og mikill „á okkar mælikvarða“ að hann reisti undirstöðu Hörpu með „glópsku“ sinni. Hver annar hérlendur auðmaður eða kona hefði staðið að smíði húss á borð við Hörpu? Hún átti að vera óperuhús en ekki hæli fyrir bílskúrahljómsveitir. Í stuttri tímans rás sögu sinnar minnir hún orðið á heimilislega ruslakompu sem er full af skúringatuskum og skrúbbum undir mjóum menningarstiga. Þarna virðist vera hægt að sameina allskonar drasl og dót undir stjórn og í anda sjálfumglaðrar heimavinnandi húsmóður sem veifar svuntunni í fjölmiðlum. Eflaust hefðu engir nema Björgólfur Guðmundsson og Katrín Jakobsdóttir getað reist Hörpu á háum hugsjónum andstæðra stjórnmálaskoðana. Minni karlar og konur hefðu í mesta lagi smíðað með sínum smáíbúðahverfisanda lítið Mömmuhús við höfnina með útsýni til Esjunnar fyrir krakkagemlinga til að góna á meðan þeir gæða sér á nammi milli frekjukasta.

   Það er víst engin spurning að svikulir peningamenn í bílaiðnaði, en ekki heiðarlegir og hreinlyndir prestar með réttlætiskennd í bandarískum kirkjum, hafa keypt málverkin á uppgangstímunum í Detroit og gefið borginni sinni, einmitt þegar hinir rassprúðu bílar, drekar og drossíur með þúsund ljósum og krómuðu skrauti að framan og aftan brunuðu um malarvegi á Íslandi og jusu undan sér möl á beljur og rollur við vegakant í sveitum og báru þannig Bandaríkjunum vitni. Drekarnir breiddu ákaft út kanadýrðina þannig að enginn heilvita maður á Fróni varð „kjaftstopp“ í lofsöng sínum um hana.

    Við þetta er því að bæta, háværu fólki til íhugunar, að til þess að skapa auðlegð, hvort sem hún er efnisleg eða andleg, þurfa að vera hæfileikar á sem flestum sviðum og það er eðli hæfileika að skapa auðlegð. Ef hátt skal reisa hallir og þjóðfélög nægir ekki að hafa „réttlætiskennd“ sem hefur þann eina tilgang í tilveru sinni að sækja gjammandi og heimtufrek í garð auðsins sem hún er ófær um að skapa sjálf í Detroit dusilmenna samtímans.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3