Gudbergsstofa 940x250 013

Pútín - Hugsun dagsins

fullsizeoutput 6a14 02 copy2Heimspekilegar samræður við Pútín

Hugsun dagsins

Um hvað er heimspekingurinn að hugsa í dag?

Pútín: Um tilraun landa míns, Pavlofs, með hunda í tengslum við græðgi .

Segðu.

Pútín: Pavlof sendi alltaf sama hljóð og gaf síðan hundum mat. Þeir runnu alltaf  á það froðufellandi en hunsuðu önnur enda seðja ekki öll hljóð græðgi.

Hvaða lærdóm má draga af þessu?

Pútín: Hundar renna froðufellandi á sama hljóðið. Eins er með mennina.

Er þá svipað eðlið í hundum og mönnum?

Pútín: Já, hvað græðgina varðar og von um æti. Ég gerði frekari tilraun og spurði: Er munur á hundum og tíkum hvað varðar froðu og græðgi.

Eflaust eru tíkurnar skárri?

Pútín: Hér er enginn kynjamunur. Græðgin og froðan sú sama.

Eru til sýni í samtímanum hér?

Pútín: Ótal.

Nefndu eitt bitastætt.

Pútín: Ef heyrist sama hljóð um Jón Baldvin Hannibalsson rjúka óðar fram froðufellandi gráðugir femínistar í von um fréttaæti í fjölmiðlunum.

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn vaknar af sumardvala

Jólakötturinn vaknar af sumardvala og segir:

Þegar ég hlusta á umhverfis- og auðlindaráðherrann og fæ í eyrun flaum af tungu hans þá dettur mér þrennt í hug og eitt P.S:
2016 01 17 04.54.36 03

  1. Á að setja Norðmenn á hausinn með bensín- og olíubanni á bílaflotann?
  2. Er vinaþjóðin tilbúin að fremja sjálfsmorð á olíuborpöllum og velja íslenska loftkastala?
  3. Fáum við ekki innan skamms að fljúga til Florída í vélum WOW og Icelanadair heldur á baki vindhana?


P.S

Hvað varð um metangasið sem átti að bjarga okkur frá mengun? Var það svipað því sem amma kallaði „Vindinn úr henni Veigu“ en nú mætti kalla  „Valgerðarprump“ Framsóknar?

Guðbergur Bergsson

Fegurð einmanaleikans

Stundum skapa íslensk yfirvöld stjórnmálaleg listaverk sem eru í eðli sínu snilld vegna þess að þau eru tákn sem fela í sér einfaldleika jafn einfaldan og sáran og harmleikur. Einn slíkur var haldinn á Þingvallapalli þar sem valdamenn landsins sátu saman á stólum andspænis fegurð náttúrunnar til að minnast hundrað ára sjálfstæðis. Aðrir, sem komust ekki á athöfnina, gátu horft á hana í sjónvarpinu og fengið  hugljómun. Næstum enginn alþýða mætti á Gleðigöngu sjálfstæðisins enda var þar enginn hommi að mera sig, eins og það hét þegar samkynhneigðir voru kallaðir kynvillingar og taldir vera hættulegir þjóðinni. Á skjánum núna sáust ráðamennirnir ganga í afar ruglingslegu ef ekki útúrborulegu liði milli hárra hamra hins helga staðar. Allt í einu snarstansaði liðið þegar fyrrum forsetafrú rauf gönguna með því að hlaupa flott í tauinu á háhæluðum skóm úr á kafagrasið og skakklappast að sitjandi konu á þúfu með nokkra hunda sem dingluðu skottinu vinalega við að sjá hefðargönguna. Athöfnin bar upp á dag íslenska fjárhundsins. Frúin gerði sér lítið fyrir, hrifsaði glaðlegan smalahund og rauk aftur að fylkingunni sem hélt strax af stað að pallinum undir leiðsögn seppa eins og fylkingin væri viss tegund af sauðfénaði. Þá hófust á pallinum svipaðar ræður og venjulega en þarna var enginn lestur ljóða eftir þjóðskáld og hvorki rokksöngur né rapp. Allt einkenndist af jarmi stjórnmála. Ekki bólaði á fjölbreytni þótt Ísland sé að vissu leyti til á tveimur stöðum öðrum en sínum eigin, landfræðilega séð. Annars vegar er það til á meðal Vestur-Íslendinga og hins vegar í Danmörku. Landið var á ýmsan hátt vagga menningar okkar undir danskri stjórn. Ekki sást fulltrúi fyrir Vestur-Íslendinga en aftur á móti Dana sem hefur valdið fjarafoki hjá þeim sem vita ekki, þrátt fyrir visku sína, að andstæðar hugmyndir auðga menn og þjóðir. Undir fjaðrafokinu hefur dulist gaggandi hænan sem heldur að ef fjaðrir hennar fjúka hátt fellur goggur og stélið ekki lágt. En á pallinum hefðu mátt auka tengslin á milli Íslands og ytri tauga þess í útlöndum. Við munum aldrei losna við fortíðina enda óhollt þjóðum að reyna að fela eða afskrifa hana með ópum. Í löndum samtímana er það stundum reynt. Hér með því að minnka dönskukennslu í skólum í staðinn fyrir að auka og grafa í sameiginlegar námur landanna. Með því hefði pallurinn borið ljóma inn í framtíðina en ekki bara verið eitthvað dæmigert íslenskt á lausum stólum andspænis dýrð og einsemd náttúrunnar.

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn gefur Hæstarétti fimm stjörnur í hanamálinu

Jólakötturinn gefur Hæstarétti fimm stjörnur í hanamálinu

Það er ekki allt neikvætt í íslensku lagaumhverfi. Dæmi um það er deilan sem hefur hlotið nafnið „hanamálið í Mosfellsbæ“. Að lokum fór það þannig að hanarnir fengu ekki bara náðun heldur uppreist æru í Hæstarétti. Núna gala þeir eins og hanar í lýðræði. Ekki kemur fram í blöðum, ekki einu sinni í  svínakjötstilboðsauglýsingablaðinu (hér á kötturinn við Fréttablaðið) 2017 07 30 12.47.10 HDR 02sem lifir á kjörorðinu „Bónus ekkert bruðl“  né í málgagni kveinstafanna, DV, hvaða lögmenn vörðu hanana af þekkingu á réttarstöðu sakborninga í Héraðsdómi. Mörgum finnst það vera galli; kannski hefur verið formgalli á ákærunni. En víst er að hanarnir urðu ekki lausir sinna mála, ef svo er hægt að segja um hanagal, fyrr en í Hæstarétti. Ekki þurfti að fara með málið og verja það fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur stundum leikið íslenska löggjöf grátt, Hæstarétt líka. Kannski hafa dómararnir ekki þorað annað en að náða hanana til að fá þá ekki galandi á sig, sigri hrósandi frá Mannréttindadómstólnum og hann orðið að athlægi um allan hinn réttláta heim „sem við berum okkur saman við“. Einnig er spurt: „Voru hanarnir kallaðir fyrir dóm og spurðir „spjörunum úr“ af færustu lögfræðingum?“ Ekki síður brann á vörum fólks: „Voru hænurnar kvaddar til vitnaleiðslu og spurt hvort þær hefðu orðið fyrir hanaofbeldisgali og orðið pirraðar?“
Eins og oft hér á landi er mörgu ósvarað en mun eflaust koma í ljós síðar, kannski það að í rauninni var ekki veist að hönunum heldur í laumi að eigendum þeirra eða hönunum og þeim, „jafnt beggja“. Góðu heilli kom hanamálið í sjónvarpinu og falleg fréttakona látin „vera í mynd“ þar sem hún sat prúðbúin með fréttakonubros á vör ekki í þröngri hænsnastíu eða á hænsnapriki heldur á mosagrónum og lífrænum trédrumbi í „opnu rými“ eins og það heitir þar sem ekki þekkist ofbeldi á hænum. Hvað sem því líður og spurningunni: „Af hverju komu hanarnir ekki í Kastljósið?“ þá hindruðu dómarar Hæstaréttar að hanarnir færu til afplánunar á Hólmsheiði og yrðu heimsfrægir úti í hinum gríðarstóra heimi eins og margt annað sem Ísland hefur fætt af sér. Einni spurningu er ósvarað: „Hvað hefðu hanarnir fengið margra ára dóm ef þeir hefðu verið fundnir sekir? Hefði mátt snúa þá úr hálsliðnum eins og gert var við hana úti um allar trissur áður en Ísland varð nútímalegt réttarríki?“   

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn: Erlendir flóttamenn og innlendir flóttamenn í eigin landi

Erlendir flóttamenn og innlendir flóttamenn í eigin landi

Hvað er flóttamaður?

Hann er öðru fremur bjargarlaus.

Maður getur verið jafn mikill flóttamaður í eigin landi, hjá sinni þjóð, eins og erlendir hælisleitendur. En innlendir flóttamenn eru ekki flokkaðir sem flóttamenn á vegum Rauða krossins heldur útigangsmenn. Áður hétu þeir ræflar.

Hafa ber í huga að sú staða getur komið upp hjá þjóðum að stjórnvöld þeirra verði dæmd eftir því hvernig þau koma fram við þegna sína fremur en aðra. Ill og óréttlát framkoma við eigin þegna eða landsmenn var eitt það versta sem einkenndi stjórnvöldin í Aþýðulýðveldunum og varð þar 2017 09 16 21.11.59 04kommúnismanum að dapurlegu falli. Aftur á móti núna, eftir heimskulegt fall kommúnismans og drukknun hans í kennisetningavaðlinum, hefur komið upp sú staða í frjálsum lýðræðisríkjum, að stjórnvöldin þar koma oft betur fram við erlent flóttafólk en eigin þegna í erfiðri stöðu. Til dæmis eftir hérlend rán banka á húsnæði og framleiðslutækjum í skjóli laganna.

Munið og takið eftir þessu í íslenska dómskerfinu og hegðun lögfræðinga í þágu löglegrar lögleysu og ofbeldis:

Fíflalæti laganna eru hættuleg.
Fíflalæti fíflanna eru bara fíflaleg.

Eftir myndum að dæma í sjónvarpi og blöðum virðist aðbúnaður erlendra flóttamanna hér oft vera betri en hinna innlendu. Þannig búa þeir í fínum íbúðum með sófasetti en hinir innlendu kannski í tjaldi með von um að fá inni í húsbíl með vetrinum.

Jafnvel góða, vel stæða menntafólkið sem setur samúðina á oddinn í framleiðslu á munnsósu sinni, býður ekki einu sinni innlendu tjaldbúðaflóttafólki heim í kaffisopa þótt ekki væri nema til þess að fá mynd af sér í DV.

 Hvaða kjósandi getur kosið stjórnmálaflokk öfugsnúinnar kleinu sem kemur á þannig jöfnuði?

Kjósið gegn kjaftavaðalsliðinu!

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3