1900
• 28. október: Jóhanna Guðleif Vilhjálmsdóttir, móðir Guðbergs Bergssonar, fæðist í Miðhúsum í Þorkötlustaðahverfinu í Grindavík.

1903
• 1. maí: Bergur Bjarnason, faðir Guðbergs, fæðist á Hellnafelli í Grundarfirði.

1930

• 2. júlí: Bjarni Bergsson, elsti bróðir Guðbergs, fæðist á Eyvindarstöðum í Þorkötlustaðahverfinu
í Grindavík.

1932
• 16. október: Guðbergur Bergsson fæðist í húsi foreldra sinna, Bergshúsi á Ísólfsskála við
Grindavík.

1935
• Bergur, faðir Guðbergs, smíðar fjölskylduheimilið Hjarðarholt í Þorkötlustaðahverfinu í Grindavík.

1937
• 2. október: Vilhjálmur Þorberg Bergsson, bróðir Guðbergs, fæðist í Þorkötlustaðahverfinu í Grindavík.

1939
• Guðbergur byrjar að vinna og fær peninga fyrir að breiða og þurrka saltfisk á reit. Hann kaupir Alþýðublaðið til þess að geta lesið framhaldssöguna Karena systir eftir Theodore Dreiser. Hann
segir upp blaðinu þegar sú næsta birtist, ástarsagan Ég sleppi þér aldrei.

1940
• Guðbergur eignast sína fyrstu ljósmyndavél, Kodak kassamyndavél og fer að gera tilraunir með birtu og tíma.

1941
• Guðbergur er sendur í sveit, að Auðsholti í Biskupstungum hjá Jóni Bjarnasyni og Hermanni bróður hans og starfar við almenn sveitastörf í þrjú sumur. Á þessum tíma tekur hann flokka ljósmynda, meðal annars af dýrum að eðla sig. Þetta þótti skammarlegt af barni og myndirnar voru eyðilagðar fyrir honum; aðeins ein lifði af.

1942
• 13. október: Hinrik Salómon Bergsson, yngsti bróðir Guðbergs, fæðist í Þorkötlustaðahverfinu í Grindavík.

1943
• Guðbergur er í barnaskólanum í Þorkötlustaðahverfinu.

1945
• Guðbergur ræðst í að vinna á vöktum í frystihúsum í Grindavík við frystingu en einnig að flaka, vaska fisk og salta síld.

1946
• Guðbergur fer að vinna í Skipasmíðastöðinni í Ytri Njarðvík.

1947
• Guðbergur fer á skátamót á Þingvöllum og kemst á Heklutindinn eftir eldgosið.
• Um haustið fer hann á Núpsskóla í Dýrafirði og lærir þar í tvo vetur.

1948
• Guðbergur sækir um vinnu hjá Lockheed Aircraft Corporation of America og verður það sem var kallað KP, aðstoðarmaður í eldhúsi félagsins í Broad street á Stapanum og starfar þar í þrjú ár.

1949
• Guðbergur fær í fyrsta sinn eigið herbergi í Broad street. Honum eru greidd góð laun á réttum tíma. Þarna fær hann aðgang að sjálfum sér og kynnist erlendri menningu í umgengni við ameríska tæknimenn af ýmsu þjóðerni í vinnunni. Hann fer að yrkja. Útlendu kokkarnir kenna honum matreiðslu og þjálfa hann í enskri tungu.

1950
• Guðbergur segir upp hjá Lockheed þegar Ísland gengur í NATO og bandaríski herinn kemur aftur undir nafninu Varnarliðið.

1951
• Guðbergur fer að vinna í frystihúsum. Um haustið innritast hann í Kennaraskóla Íslands og lærir þar í fjögur ár.

1953
• Þetta sumar fer Guðbergur til Rúmeníu með Æskulýðsfylkingunni á Heimsmót æskunnar í Búkarest og er í kór Jóns Ásgeirssonar. Hann syngur í útvarp og fær í fyrsta sinn greitt fyrir „starf við listir“.

1955
• Guðbergur lýkur kennaraprófi úr Kennaraskólanum og vinnur á vöktum allan sólarhringinn í Vefaranum við að vefa gólfteppi.

1956
• Guðbergur fer 24 ára einn síns liðs til Spánar. Hann þekkir þar engan og kann ekki orð í spænsku en innritar sig í skóla í Barcelona, Universidad de Barcelona.

1958
• Guðbergur fær Diploma í svonefndum spænskum fræðum frá Universidad de Barcelona og ferðast með ýmsu móti um allan Spán, Grikkland, Júgóslavíu og Ítalíu.

1959
• Guðbergur ferðast í fyrsta sinn um Portúgal.

1960
• Guðbergur starfar sem hjúkrunarmaður á vöktum á Kleppi.

1961
• Guðbergur gefur út sína fyrstu skáldsögu, Músin sem læðist, og ljóðabókina Endurtekin orð.

1963
• Guðbergur ferðast um Sviss, Austurríki og Þýskaland í leit að suður-amerískri list á söfnum.
• Hann gefur úr smásagnasafnið Leikföng leiðans.

1964
• Í desember fer Guðbergur að vinna á Hótel Borg sem nætur- og dyravörður og er þar til vors árið 1967.

1965
• Guðbergur túlkar og aðstoðar gríska saltfiskkaupendur sem dvelja á Hótel Borg, Adamis og Mamais, við að kaupa fyrsta flokks saltfisk. Þeir vildu ekki magn heldur gæði, andstætt seljendunum. Adamis og Mamais verða hissa á að sérfræðingur í saltfiski og sölu á honum sé næturvörður.
• Guðbergur þýðir úr spænsku hluta af Platero og ég (Platero y yo) eftir Juan Ramón Jiménez.

1966
• Guðbergur aðstoðar á Hótel Borg pólskan innflytjanda við að kaupa salt- og kryddsíld. Hann kennir honum hvernig eigi að athuga gæði síldar með hliðsjón af pæklun í tunnum sem hafa verið látnar vera inni eða úti. Sá pólski verður undrandi yfir að sérfræðingur í síldarframleiðslu og sölu skuli vera næturvörður.
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Tómas Jónsson, metsölubók.

1967
• Guðbergur fer til Madrid og dvelur þar langdvölum í fyrsta sinn. Hann fer til Portúgals og leggur stund á portúgölsku í Lissabon og kynnir sér Fado-tónlist og söngva og alþýðutónlist frá ýmsum héruðum landsins og safnar hljómplötum. Hann sest að á Pensão Sevilha við Praça da Alegria innan um hórur, nektardansmeyjar, leikara, söngvara og hina alræmdu leynilögreglu PIDE, njósnara og landflótta nasista í felum þarna frá ýmsum löndum Evrópu.
• Hann birtir smásagnasafnið Ástir samlyndra hjóna og fær Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun blaðanna.

1968
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Önnu.

1969
• Guðbergur fer að semja í alvöru það sem hann á eftir að kalla ljóð-hljóð. Hann notar Philips hljóðupptökutæki. Í verkinu Ljóð-hljóð í Lissabon 1969, heyrist hvernig hann þræðir stræti og torg og safnar hljóðum og söngvum á ýmsum stöðum.

1970
• Guðbergur kaupir sína fyrstu kvikmyndatökuvél, Eumig super 8. Hann fer að gera stutt kvikmyndaverk; í sumum leikur hann sjálfur í tengslum við málverk bróður síns, Vilhjálms Bergssonar. Flest af þessu er týnt en nokkur hafa fundist.
• Hann gefur út smásagnasafnið Hvað er eldi guðs?

1971
• Guðbergur heldur sýningu ásamt SÚM-hópnum í Fodor-safninu í Amsterdam. Hann flytur þar í fyrsta sinn opinberlega Ljóð-hljóð.

1972
• Guðbergur heldur sýningu með SÚM í Den Frie í Kaupmannahöfn og flytur þar ljóð-hljóða-óperu sína Skáldað í skáldinu af segulbandi. Hún var að mestu eyðilögð á sýningunni en brot og tilbrigði hafa varðveist í ýmsum gerðum.
• Guðbergur dvelur sumarlangt í Hölluhúsi í Flatey. Hann þýðir úr fornspænsku Lazarus frá Tormes (Lazarillo de Tormes); höfundurinn er óþekktur.

1973
• Guðbergur heldur sýningu í SÚM Ljóð - Mynd – Ljóð - Hljóð OOOOO, ljósmyndir og annað sem síðar varð ljóðabókin Flateyjar-Freyr. Í SÚM flutti hann af munni fram og með útvarpsmagnara Ljóðfórnir til Flateyjar-Freys. Hann sýnir með SÚM H2O í Nikolásarkirkjunni í Kaupmannahöfn og fer með sýninguna í Amos Anderson safnið í Helsinki. Í framhaldi af þessu ferðast hann um Finnland og fær vegabréfsáritun til þess að heimsækja á eigin vegum Sovétríkin. Hann dvelur í Leníngrad og Moskvu og tekur kvikmyndir á Super 8.
• Hann skrifar sýningarskrá og sér með Eyborgu Guðmundsdóttur um farandsýninguna List um landið á vegum Félags austur-húnvetnskra kvenna. Síðan tóku önnur kvenfélög við sýningunni.
• Hann þýðir úr spænsku Króksi og Skerðir (Rinconete y Cortadillo) eftir Miguel de Cervantes.
• Hann gefur út skáldsöguna Það sefur í djúpinu.

1974
• Guðbergur er í Lissabon þegar byltingin er gerð og kvikmyndar atburði á Super 8.
• Á Íslandi skipuleggur hann og setur upp á tveimur stöðum í Reykjavík fyrstu sýningu á íslenskri alþýðulist í Ásmundarsal og Gallerí SÚM við Vatnsstíg.
• Hann gefur út skáldsöguna Hermann og Dídí.
• Hann gefur út ljóðabókina Flateyjar-Freyr. Ljóðfórnir.

1975
• Guðbergur dvelur í Flórens á Ítalíu við ítölskunám en fer aftur til Lissabon og festir atburði byltingarinnar í Portúgal og lokastig hennar á filmu og ljósmyndir.
• Hann dvelur um skeið á Azoreyjum, ferðast þar um við að kvikmynda, taka ljósmyndir og athugar áhrif byltingarinnar á líf eyjaskeggja.
• Hann þýðir úr spænsku Suðrið (El sur) eftir Jorge Luis Borges.

1976
• Guðbergur heldur sýningu í SÚM Byltingin í Portúgal, ljósmyndir, kvikmyndir og veggspjöld.
• Hann birtir í Þjóðviljanum ljósmyndasöguna Börn í byltingunni.
• Hann gefur út skáldsöguna Það rís úr djúpinu.

1977
• Guðbergur leigir hjá Málfríði Einarsdóttur skáldkonu og tekur af henni ljósmyndir og gerir um hana stutta heimildarmynd. Guðbergur semur texta við myndina, sem hann les upp sjálfur. Þorgeir Þorgeirsson hjálpar honum við að færa inn hljóð og koma þessu á vídeóspólu. Myndin er líklega ennþá til.

1978
• Guðbergur kennir um tíma þroskaheftum börnum í Öskjuhlíðarskóla og nemendum í Nýlistadeildinni í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands.

1979
• Guðbergur semur ljóð-hljóðið Söngur blindra, söngl happdrættismiðasala á götum í Madrid sem nú eru horfnir.
• Hann gefur út skáldsöguna Saga af manni sem fékk flugu í höfuðið.
• Guðbergur þýðir úr spænsku Hundrað ára einsemd (Cien años de soledad) eftir Gabriel García Márquez.

1980
• Guðbergur gerir skrá, semur texta og sér um sýningu á Hörmungum stríðsins eftir Goya í Listasafni Alþýðu og setur upp skyggnur.
• Hann þýðir úr spænsku Liðsforingjanum berst aldrei bréf (El coronel no tiene quien le escriba) eftir Gabriel García Márquez.
• Hann gefur út skáldsöguna Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans.

1981
• Guðbergur kaupir sýna fyrstu íbúð, að Vífilsgötu 6 í Reykjavík.
• Hann þýðir úr spænsku Ævintýri úr frumskóginum (Cuentos de la selva) eftir Horacio Quiroga.

1982
• Guðbergur fær Elías Mar rithöfund til þess að leika hlutverk skáldsins í B-útgáfunni af hinni eyðilögðu óperu Skáldað í skáldinu. Af verkinu og leik Elíasar er til brot á Super 8 filmu.
• Hann gefur út skáldsöguna Hjartað sem býr enn í helli sínum.
• Hann þýðir úr spænsku fyrstu gerð sína af Don Kíkóta frá Mancha (Don Quijote de la Mancha) eftir Miguel de Cervanes.
• Hann gefur út barnabókina Tóta og táin á pabba.

1983
• Guðbergur er til leiðsagnar í Nýlistadeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands.
• Hann fær Menningarverðlaun DV.
• Hann þýðir úr spænsku Ríki af þessum heimi (El reino de este mundo) eftir Alejo Carpentier.
• Hann þýðir úr spænsku Frásögn um margboðað morð (Crónica de una muerte anunciada) eftir Gabriel García Márquez.
• Hann þýðir úr brasilískri portúgölsku barnabókina Dóttir línudansaranna (A corda bamba) eftir Lygia Bojunga Nunes.

1984
• Guðbergur gefur út smásagnasafnið Hinsegin sögur.
• Guðbergur þýðir úr spænsku Pedro Páramo (Pedro Páramo) eftir Juan Rulfo.
• 26. september: Móðir Guðbergs, Jóhanna Guðleif Vilhjálmsdóttir, lést.

1985
• Guðbergur gefur út skáldsögurnar Leitin að landinu fagra.
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Froskmaðurinn, undir skáldanafninu Hermann Másson.
• Hann þýðir úr spænsku Göngin (El tunel) eftir Ernesto Sábato.

1986
• Guðbergur fer til Bandaríkjanna. Hann tekur þátt í International Writing Program í Iowa City, dvelur í fimm mánuði í landinu og ferðast um stóran hluta þess.
• Hann þýðir úr spænsku Ástin á tímum kólerunnar (El amor en los tiempos del cólera) eftir Gabriel García Márquez.

1987
• Guðbergur fer í upplestrarferð um Þýskaland.
• Hann þýðir úr katalónsku Demantstorgið (La Plaça del Diamant) eftir Mercè Rodoreda.

1988
• Guðbergur eignast sína fyrstu tölvu og fer að skrifa á tölvu.
• Su majestad el Rey Juan Carlos, konungur Spánar, veitir Guðbergi heiðursmerki, Cruz de Caballero de la expresada Orden del Mério Civil.
• Hann þýðir úr spænsku Andrúmsloft glæps (El aire de un crimen) eftir Juan Benet.
• Hann gefur út smásagnasafnið Maðurinn er myndavél.

1989
• Guðbergur þýðir úr spænsku Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu (El general en su labirinto) eftir Gabriel García Márquez.

1991
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Svanurinn og fær Íslensku bókmenntaverðlaunin.
• Hann þýðir úr spænsku Undraborgin (La ciudad de los prodigios) eftir Eduardo Mendoza.

1992
• Guðbergur heldur sýningu á myndverkum að tilstuðlan Menningarmiðstöðvarinnar Gerðuberg og skrifar skrá með skilgreiningum á viðhorfi sínu hvað varðar fagurfræði við gerð eigin verka.
• Hann þýðir úrval ljóða úr spænsku (1900-1992), Hið eilífa þroskar djúpin sín.
• Gefin er út bókin Guðbergur Bergsson; metsölubók, viðtalsbók eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.

1993
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma.

1994
• Þjóðleikhúsið sýnir frásagnarleikinn Sannar sögur af sálarlífi systra á Smíðaverkstæðinu í leikstjórn Viðars Eggertssonar. Verkið er byggt á Tanga-bókum Guðbergs: Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og Það rís úr djúpinu.
• Hann fær riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.
• Hann þýðir úr spænsku Lýðurinn (Los de abajo) eftir Mariano Azuela.
• Hann gefur út skáldsöguna Ævinlega.

1995
• Guðbergur gefur út smásagnasafnið Jólasögur úr samtímanum.
• Hann þýðir úr spænsku Um ástina og annan fjára (Del amor y otros demonios) eftir Gabriel García Márquez.

1997
• Guðbergur fær Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar.
• Hann þýðir úr ensku Svefninn langi (The Big Sleep) eftir Raymond Chandler.
• 4. mars: Faðir Guðbergs, Bergur Bjarnason, lést.

1998
• Guðbergur skrifar bókina Sæmundur Valdimarsson og stytturnar hans og sér jafnframt um sýningu á verkum Sæmundar í Gerðarsafni í Kópavogi.
• Hann gefur út skáldævisöguna Eins og steinn sem hafið fágar.
• Hann gefur út Kenjarnar (Los Caprichos) eftir Francisco Goya y Lucientes.
• Hann þýðir úr ensku Járngresið (Ironweed) eftir William Kennedy.

2000
• Guðbergur skrifar skrá og sér með Guðbjörgu Kristjánsdóttur um sýninguna: Lífshlaup, málverk úr einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, sem haldin er í Gerðarsafni í Kópavogi.
• Hann gefur út barnabókina Allir með strætó.
• Hann gefur út smásagnasafnið Vorhænan og aðrar sögur.
• Hann þýðir úr spænsku alla bókina Platero og ég (Platero y yo) eftir Juan Ramón Jiménez.

2001
• Guðbergur gefur út ljóðabókina Stígar.
• Hann þýðir úr ítölsku Gullspangagleraugun (Gli occhiali d´oro) eftir Giorgio Bassani.

2002
• Guðbergur skrifar sýningarskrá og skipuleggur með Guðbjörgu Kristjánsdóttur sýninguna Kyrr birta - heilög birta í Gerðarsafni í Kópavogi.
• Hann gefur út barnabókina Hundurinn sem þráði að verða frægur.
• Hann gefur út Hugsanabókin: Sjötíu hugsanir.
• Hann endurþýðir úr spænsku Don Kíkóti frá Mancha eftir Miguel de Cervantes.
• Sjónvarpsmynd í tveimur hlutum, Guðbergur, eftir Tómas R. Einarsson og Þorgeir Gunnarsson.

2003
• Birna Bjarnadóttir gefur út bókina Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar.
• Menningaþáttur um Guðberg, Kobra eftir Helgu Brekkan, er sýndur í sænska sjónvarpinu SVT.

2004
• Guðbergur er gerður að heiðursborgara Grindavíkur á 30 ára afmæli bæjarfélagsins 17. apríl 2004.
• Guðbergur fær Nordiska Pris sænsku Akademíunnar.
• Hann skipuleggur ásamt Luis Revenga stóra sýningu í Gerðarsafni og semur sýningaskrá sem ber titilinn Í blóma/En cierne: Spænsk nútímamyndlist unnin á pappír.
• Frumsýning á heimildarmynd um Guðberg: Rithöfundur með myndavél eftir Helgu Brekkan.
• Hann gefur út skáldsöguna Lömuðu kennslukonurnar.
• Hann þýðir úr brasilískri portúgölsku Ellefu mínútur (11 minutos) eftir Paulo Coelho.

2005
• Guðbergur þýðir úr brasilískri portúgölsku Veronika ákveður að deyja (Veronica decide morir) eftir Paulo Coelho.

2006
• 25. apríl: Guðbergur fær fast búsetuleyfi í Madrid með Jaime Salinas, frá Ministerio de Justicia Libro de Familia.
• Hann verður með öðrum stofnandi og ritstjóri Stínu, tímarits um bókmenntir og listir.
• Hann gefur út skáldsöguna 1 ½ bók Hryllileg saga.

2007
• Juan Carlos 1. Konungur Spánar veitir Guðbergi í gegnum utanríkisráðuneyti landsins æðstu orðu: De la orden de Isabel la Católica.

2008
• Guðbergur gefur út barnabókina Leitin að barninu í gjánni.

2009
• Guðbergur þýðir Öll dagsins glóð, úrval portúgalskra ljóða.

2010
• Guðbergur gefur út skáldsöguna Missir.

2011
• 15. janúar - 20. febrúar: Guðbergur er sýningarstjóri á sýningunni Ásýnd landsins: Vatnið, jörðin, hafið og himininn í Gerðarsafni í Kópavogi.
• 27. mars: Hann tekur þátt í minningarathöfn í Residencia de Estudiantes í Madrid vegna andláts Jamie Salinas.
• 16. september: Hann heldur opnunarerindi á 60 ára afmælishátíð íslenskudeildar Mantiobaháskóla í Winnipeg.
• 18. september: Heimildarmynd um Guðberg eftir Helgu Brekkan: Rithöfundur með myndavél, er sýnd í New Iceland Heritage Museum á Gimli í Kanada.
• Frumsýnd er sjónvarpsmynd í leikstjórn Helgu Brekkan um Guðberg og fleiri listamenn Iceland´s Artists and Sagas. Myndin var framleidd fyrir þýsk/frönsku sjónvarpsstöðina ARTE og var meðal annars sýnd á ZDF í Þýskalandi, í Svissneska sjónvarpinu, ORF í Austurríki, RÚV á Íslandi, ARTE í Þýskalandi og ARTE í Frakklandi.
• Guðbergur ferðast á mótorhjóli um Þýskaland og Spán.

2012
• Guðbergur dvelur á Gimli í Manitoba í janúar og febrúar. Hann fæst við kvikmyndatökur og viðtöl við Vestur-Íslendinga vegna fyrirhugaðra sjónvarpsþátta. Hann ferðast meðal annars um
Winnipegvatn á snjósleða í 40 stiga frosti.
• Hann fæst við upptökur og vinnslu á heimildarmyndinni Leitin að Grindavík sem fjallar um heimabæinn, Grindavík.
• Hann lærir að fljúga flugvélum sjálfur. Fer í flugútileigu um Vestfirði og gistir í tjaldi í fyrsta sinn frá árinu 1947.
• Hann gefur út skáldsöguna Hin eilífa þrá, lygadæmisaga.
• Ný endurútgáfa á Tómasi Jónssyni metsölubók.
• Gefin er út bókin Bara Guðbergur, fræðirit um skáldskap og menningarumhverfi Guðbergs Bergssonar eftir Örn Ólafsson.
• 6. október: Guðbergur er heiðraður í Grindavík í tilefni af áttræðisafmæli hans. Undirrituð er viljayfirlýsing um opnun Guðbergsstofu.
• 16. október: Guðbergur dvelur í Lissabon á áttræðisafmæli sínu. Borðar alþýðlegan kvöldmat í „Kjúklingahöllinni“ í Lissabon.

2013
• 5. maí: Vala á Skála, kvikmynd eftir Guðberg er frumsýnd á kaffihúsinu Bryggjunni í Grindavík í tilefni af 101 árs afmæli Völu, móðursystur Guðbergs.
• Gefin er út bókin Popol Vúh trúarrit Kítse-indíána af kynstofni Maya í þýðingu Guðbergs.
•1. júní: Alþjóðlegt málþing til heiðurs Guðbergi í Hátíðasal Háskóla Íslands: Stofnun Vígdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Íslenskudeild Manitobaháskóla,
Bókmennta– og listfræðistofnun Háskóla Íslands, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Grindavíkurbær, JPV Forlag, Menningar– og menntamálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO, Listahátíð.
• 1. júní: Hinni alþjóðlegu ráðstefnu lýkur með athöfn þar sem Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands sæmir Guðberg Bergsson heiðursdoktorsnafnbót fyrir ævistarf hans sem rithöfundar og þýðanda og fyrir framlag hans til íslenskra bókmennta og menningarlífs.
• 2. júní: Guðbergsstofa opnar í Kvikunni, auðlinda- og menningarhúsi Grindavíkur. Guðbergsstofa er safn tileinkað lífsstarfi Guðbergs Bergssonar.

 

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3