Gudbergsstofa 940x250 013

Jólakötturinn gefur Hæstarétti fimm stjörnur í hanamálinu

Jólakötturinn gefur Hæstarétti fimm stjörnur í hanamálinu

Það er ekki allt neikvætt í íslensku lagaumhverfi. Dæmi um það er deilan sem hefur hlotið nafnið „hanamálið í Mosfellsbæ“. Að lokum fór það þannig að hanarnir fengu ekki bara náðun heldur uppreist æru í Hæstarétti. Núna gala þeir eins og hanar í lýðræði. Ekki kemur fram í blöðum, ekki einu sinni í  svínakjötstilboðsauglýsingablaðinu (hér á kötturinn við Fréttablaðið) 2017 07 30 12.47.10 HDR 02sem lifir á kjörorðinu „Bónus ekkert bruðl“  né í málgagni kveinstafanna, DV, hvaða lögmenn vörðu hanana af þekkingu á réttarstöðu sakborninga í Héraðsdómi. Mörgum finnst það vera galli; kannski hefur verið formgalli á ákærunni. En víst er að hanarnir urðu ekki lausir sinna mála, ef svo er hægt að segja um hanagal, fyrr en í Hæstarétti. Ekki þurfti að fara með málið og verja það fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur stundum leikið íslenska löggjöf grátt, Hæstarétt líka. Kannski hafa dómararnir ekki þorað annað en að náða hanana til að fá þá ekki galandi á sig, sigri hrósandi frá Mannréttindadómstólnum og hann orðið að athlægi um allan hinn réttláta heim „sem við berum okkur saman við“. Einnig er spurt: „Voru hanarnir kallaðir fyrir dóm og spurðir „spjörunum úr“ af færustu lögfræðingum?“ Ekki síður brann á vörum fólks: „Voru hænurnar kvaddar til vitnaleiðslu og spurt hvort þær hefðu orðið fyrir hanaofbeldisgali og orðið pirraðar?“
Eins og oft hér á landi er mörgu ósvarað en mun eflaust koma í ljós síðar, kannski það að í rauninni var ekki veist að hönunum heldur í laumi að eigendum þeirra eða hönunum og þeim, „jafnt beggja“. Góðu heilli kom hanamálið í sjónvarpinu og falleg fréttakona látin „vera í mynd“ þar sem hún sat prúðbúin með fréttakonubros á vör ekki í þröngri hænsnastíu eða á hænsnapriki heldur á mosagrónum og lífrænum trédrumbi í „opnu rými“ eins og það heitir þar sem ekki þekkist ofbeldi á hænum. Hvað sem því líður og spurningunni: „Af hverju komu hanarnir ekki í Kastljósið?“ þá hindruðu dómarar Hæstaréttar að hanarnir færu til afplánunar á Hólmsheiði og yrðu heimsfrægir úti í hinum gríðarstóra heimi eins og margt annað sem Ísland hefur fætt af sér. Einni spurningu er ósvarað: „Hvað hefðu hanarnir fengið margra ára dóm ef þeir hefðu verið fundnir sekir? Hefði mátt snúa þá úr hálsliðnum eins og gert var við hana úti um allar trissur áður en Ísland varð nútímalegt réttarríki?“   

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn: Erlendir flóttamenn og innlendir flóttamenn í eigin landi

Erlendir flóttamenn og innlendir flóttamenn í eigin landi

Hvað er flóttamaður?

Hann er öðru fremur bjargarlaus.

Maður getur verið jafn mikill flóttamaður í eigin landi, hjá sinni þjóð, eins og erlendir hælisleitendur. En innlendir flóttamenn eru ekki flokkaðir sem flóttamenn á vegum Rauða krossins heldur útigangsmenn. Áður hétu þeir ræflar.

Hafa ber í huga að sú staða getur komið upp hjá þjóðum að stjórnvöld þeirra verði dæmd eftir því hvernig þau koma fram við þegna sína fremur en aðra. Ill og óréttlát framkoma við eigin þegna eða landsmenn var eitt það versta sem einkenndi stjórnvöldin í Aþýðulýðveldunum og varð þar 2017 09 16 21.11.59 04kommúnismanum að dapurlegu falli. Aftur á móti núna, eftir heimskulegt fall kommúnismans og drukknun hans í kennisetningavaðlinum, hefur komið upp sú staða í frjálsum lýðræðisríkjum, að stjórnvöldin þar koma oft betur fram við erlent flóttafólk en eigin þegna í erfiðri stöðu. Til dæmis eftir hérlend rán banka á húsnæði og framleiðslutækjum í skjóli laganna.

Munið og takið eftir þessu í íslenska dómskerfinu og hegðun lögfræðinga í þágu löglegrar lögleysu og ofbeldis:

Fíflalæti laganna eru hættuleg.
Fíflalæti fíflanna eru bara fíflaleg.

Eftir myndum að dæma í sjónvarpi og blöðum virðist aðbúnaður erlendra flóttamanna hér oft vera betri en hinna innlendu. Þannig búa þeir í fínum íbúðum með sófasetti en hinir innlendu kannski í tjaldi með von um að fá inni í húsbíl með vetrinum.

Jafnvel góða, vel stæða menntafólkið sem setur samúðina á oddinn í framleiðslu á munnsósu sinni, býður ekki einu sinni innlendu tjaldbúðaflóttafólki heim í kaffisopa þótt ekki væri nema til þess að fá mynd af sér í DV.

 Hvaða kjósandi getur kosið stjórnmálaflokk öfugsnúinnar kleinu sem kemur á þannig jöfnuði?

Kjósið gegn kjaftavaðalsliðinu!

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn: Víti hliðstæðna í þjóðlífi og íslenskum stjórnmálum

Nýtt ávarp jólakattarins
Veitið athygli víti hliðstæðna í þjóðlífi og íslenskum stjórnmálum: 

Jolakottur 03Ekki fyrir löngu var sök forsætisráðherra byggð á „sekt“ eiginkonu hans að flestra dómi. Þannig féll stjórnin réttlátum til gleði en engum til góðs eða hagnaðar. Setið var um forsætisráðherrann með kvikmyndavélum sem sannleiksást fjölmiðla stjórnaði.

Ekki er litið á þannig fréttaþörf sem opinbert einelti.  

Nokkrum mánuðum síðar hefur nýr forsætisráðherra fallið vegna „sektar“ föðurins að flestra dómi.

Varið ykkur á hliðstæðum innan vítahrings íslensks hugsanagangs sem er kristinn með hugmyndir um erfðasyndina.

Forðist nýja umstöflun í stjórnmálum með sömu þorska og ýsur í salthúsi.

Reynið að líta í eigin barm og athugið erfðasyndina og eðli eilífrar íslenskrar umstöflunar.

Réttlátir, leggið ekki „seka“ í hættulegt einelti. Ef þið haldið svona áfram þurfa kannski allir „afbrotamenn“ að vera brennimerktir ævilangt. Eða „sekir“ fá sérstök merki svo saklausir átti sig og verji sig með grjótkasti.

Nasistar létu „seka“ bera merki eða stjörnur svo réttlátu lömbin gætur varað sig á úlfunum.

Í sögu nútímans hafa alþýðudómstólar hvergi gagnast vel, hvorki í Þýskalandi nasismans, Rússlandi kommúnismans, Kína ...

Vegið ekki svo að „sekum“ að þeir verji sig með sjálfsvígum gegn réttlátum sem finna hjá sér sekt sökum ábyrgðarleysis gagnvart þeim sem þeir hefðu átt að vernda en vörðu ekki.

Sparkið ekki í bíla forsætisráðherra, sparkið í hausinn á ykkur og líka í rassgat réttlætis ykkar.

Guðbergur Bergsson

Jólakötturinn: Tala Íslendingar eskimóaensku?

Sjálfumglaði íslenski skapandi heilsárs jólakötturinn ríður á tæpasta vaðið hjá heimsþekktu bókaþjóðinni og hrindir hér af stað úr startholunni á undan öllum sínu eigin jólakattarbókaflóði

Tala Íslendingar eskimóaensku?

20170527 01Eftir seinni heimsstyrjöldina hvarf íhaldsleiðtoginn Churchill óvænt frá völdum á Englandi eftir ósigur í þingkosningum þótt hann hefði allan stríðstímann verið talinn þjóðarhetja. Eftir kosningarnar tók Breski verkamannaflokkurinn við með Clement Atlee sem forsætisráðherra. Almælt var að um hann hafði Churchill sagt þessi háðuglegu orð: „Tómur leigubíll kom akandi. Hann nam staðar og út úr honum steig Clement Atlee.“ 

   Eitt af því fyrsta sem ríkisstjórn mannsins sem kom í tóma leigubílnum var að semja lög til hagsbótar einkum fyrir almenning. Eitt af þeim var að veitta ókeypis alhliða heilbrigðisþjónustu og í henni fólust tannviðgerðir og tannsmíði. Lögin áttu að bera vott um stefnu og hugmyndir um sósíalisma og jafnrétti.  Hvað sjúkraþjónustuna varðaði var enginn munur gerður á ríkum og fátækum, háum og lágum stéttum, og ekki heldur hvort þeir sem þurftu á slíkri þjónustu að halda væru breskir eða fólk af öðru þjóðerni. Á Bretlandi átti sósíalisminn að vera í hreinni mynd mannúðar og jafnréttis.

  Orð Churchills um Atlee voru þekkt hér á meðal „mætustu manna“ helst í kaupmannastétt. Það gerðist næstum um leið og bjargvættur Bretlands lét þau út úr sér enda var Churchill dáður sem hetja, háðfugl og málsnillingur. Lærðir og valdamenn höfðu gaman af ummælum hans og einnig hinn húsbóndaholli og fylgispaki almúgi. Enda einkennir allar stéttir að geta notið kvikindislegs háðs „sem er mátulegt á aðra“. Á þessum tíma var bresk göfgi og fyndni lofsungin, ekki síst af kennurum í æðri skólum þar sem enska var kennd. Illgirni hástéttarmannsins Churchill þótti mátuleg á lágan Atlee, formann flokks verkamanna.

   Með því að Íslendingar eru fljótir að flýja eigin vanda og finna smugu hjá öðrum sér til hagsbótar gera þeir engan greinarmun á hvort hana hafi opnað menn með hugmyndir sem þeir fylgja eða aðrir sem þeir fyrirlíta. Að hagnast skiptir höfuðmáli. Jafnt hinn valdlausi sem valdamaður treður sér inn um allar smugur eygi hann þar hagnaðarvon.

   Á Íslandi hafa tannlækningar alltaf verið í okurflokki bæði fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina. Almennt lét fólk venjulega lækna bara „rífa úr sér“. Fáir aðrir en velstæðir höfðu ráð á að fara til tannlækna. Þeir fengu sér þá gjarna gulltennur og leyndu þeim ekki í brosi. Gulltennur táknuðu auð og vald. Aðrir sem þurftu að láta „hreinsa skoltinn“ urðu að láta sér nægja að handa tveimur geiflum, annarri í efri, hinni í neðri góm til að tyggja sem var kallað „að japlað á átmat“.

   Við fréttir af ókeypis tannþjónustu á Englandi sáu ýmsir sér leik á borði og gerðu allt til að komast þangað og létta sér erfiði við að japla á matnum. Flestum mistókst enda höfðu þeir ekki mannlega valdið með sér. Aðrir með þekkingu og burði til að berjast áfram reyndu að slá víxil í bönkum og kosta ferðina og fá ókeypis góm. Einn af þessum var rithöfundurinn Elías Mar (1924-2007). Hann var ungur með allt lélegt uppi í sér, fæddur í Reykjavík en hafði ekki efni á að fara til tannlæknis þótt hann þekkti marga. Að því leyti var hann almúganum æðri og að hafa lært á orgel hjá vitrum manni og unnið dálítið hjá breska setuliðinu. Um tíma hafði hann farið í sérskóla en hætti af því að hann vildi verða rithöfundur og vissi að Halldór Kiljan Laxness hafði hætt námi í skóla. Elías vildi fylgja dæmi hans og verða mikill fyrir bragðið. Nú hugðist hann í basli sínu fá nýjan tanngarð og mennta sig í ókeypis skóla í London. Hann stóð að sögn vel að vígi í ensku, hafði þurft að babla hjá breska hernum en lærði annars lítið annað af honum en að halda á skóflu og fór eftir vinnu heim á höstum bílpalli en braut ekki rófubeinið af því starfsfélagar hans sáu hvað hann var horaður á rassinn og leyfðu honum einum að sitja á sandpoka úr skotbyrgi.

    Annað gilti um fólk af betri ættum en Elías. Það hafði efni á tannlækni en sá sér leik á borði vegna Atlee úr tóma leigubílnum sem veitti því hag, ekki bara hvað varðar munninn heldur aðrar ókeypis lækningar. Í London naut það kostakjara, að kaupa ódýran varning til að selja á uppsprengdu verði heima. Því gafst tækifæri til að fara milli blóðprufa á spítölum og búða við Oxford street. Nóg var þar af útsölum. Í sjúkrahúsum fengust ókeypis lyf og hægt að fara heim með heilan munn, bætta heilsu, fullar töskur af ókeypis lyfjum og dóti á krakkana. Hvað verðið snerti var auðvelt að láta það „hækka í hafi“ sem heildsalar gerðu. Þannig seldu Lundúnafarar þeim sem komust hvergi vörur ódýrari en sambærilegar í reykvískum búðum. Á þessum tíma beitti okureðlið þeim rökum að allt væri dýrt vegna hækkandi verðs á Santoskaffi í Brasilíu. Á Íslandi var meira góðæri en á meginlandinu sem hafði ekki náð sér eftir styrjöldina. Sú íslenska var þjóða ríkust og krónan sterk vegna stríðsgróðans; dollarinn var seldur á sex krónur á svörtum. En vegna haftaþarfa „þeirra sem héldu á peningunum“ var næstum engin leið að fá gjaldeyri nema fólk væri af góðum ættum, en séðir fundu samt ráð. Sala á gjaldeyri var stunduð óspart á veitingahúsum af „gengilbeinum“ tengdum hermönnum á Keflavíkurflugvelli, hjálpsömum strákum við að smygla út af Beisnum. Þannig blómgaðist smyglið. Sígarettur, gjaldeyri og áfengi seldu „gengilbeinur“ á Matstofu Austurbæjar, stað þar sem Tittlingasafnið er núna. Þegar erfiðismenn pöntuðu rétt dagsins spurðu þær: „Var eitthvað fleira?“ sem merkti dollara, áfengi, sígarettur eða tyggjó. Ef maður var bara svangur kom upp í þeim þóttafullt kveneðli, þær þrifu matseðilinn og sögðu: „Þá nær það ekki lengra“.Sem gat merkt: „Þú færð ekki hjá okkur hálfan skammt af saltkjöti og baunum!“ Fengju menn þetta á sig og létu sig ekki urðu þeir að þramma lengra upp Laugaveginn. Á Mjólkurstöðin var seldur tiltölulega ódýr matur sem sveitastúlkur afgreiddu ekkert í smygli heldur leit að eiginmanni og heilluðu þá álitlegu jafnvel með ábót á hálfan skammt af saltkjöti og baunum. Annars fékkst bara ábót á heilan sem í voru þrír vænir saltkjötsbita, magáll, hálfur bringukollur af hrúti og rófusneið á kafi í gulum baunum en einn þriðji úr gulrót synti í súpunni. Þetta átti að geta fyllt magamál manns í tíu tíma vinnu. Margar stúlkur sem afgreiddu náðu í mann með því að gefa honum góða ábót jafnt á heilan skammt sem hálfan. Þetta var gott fyrir þá sem voru svangir og þyrsti í stelpur og þær í stráka.

   Á Matstofu Austurbæjar gátu svangir aftur á móti aðeins hagnast á degi saltkjöts og bauna ef þeir vildu „eitthvað fleira“. Þá græddu allir nema nema kannski hermenn á Vellinum, hafi þeir ekki fengið borgað í blíðu, eins og vændið var kallað og stundað næstum í hverri kjallaraholu. Vandaðir menn og vel giftir voru meira að segja farnir að hólfa bílskúrana sína fyrir lausar konur í buxunum sem kræktu sér í Kana og pening í gluggalausu hólfunum  en sjálfir fengu þeir skilding til kaupa á stærri dekk á bílana sem stóðu nú í öllum veðrum úti á götu meðan hermönnum stóð inni í skúrunum þeirra.

   Fréttin um ókeypis tannviðgerðir og smíðar á Englandi fór sem eldur í sinu meðal fólks með brenndar tennur og ekki fram hjá Elíasi Mar. Með hjálp góðra manna gat hann slegið víxil, stigið á skipsfjöl og siglt til Leith í Skotlandi. Þaðan gekk hann upp til Edinborgar í hópi tannpínumanna af sama farrými sem linuðu kvalir með eldspýtu vafinni í bómull vættri í lýsoli og stungið í skemmdar holur. Allir komust í lest til London lýsolbrenndir og rauðir um munninn og fremur ókræsilegir.  

   Áður en Elías lagði í sína fyrstu utanlandsferð hafði hann í fátæktinni reiknað nákvæmlega hvað farið kostaði og uppihaldið í London, gisting og matur, uns hann fengi uppdubbaðan munn, eins og hann sagði og þakkað sínum sæla fyrir að hafa fengið svo góðan góm að í þrjátíu ár seinna gat hann tekið þann efri og neðri út úr sér og hrósað Bretum fyrir tannsmíði. Um leið fríkkaði hann um munninn. Frá fæðingu hafði neðrivörin verið slök en gómarnir löguðu gallann. Þeir drógu hana inn og styrktu án þess hann yrði asnalega munnfríður eða kyssilegur sem honum fannst ekki hæfa öðrum en negrum frá Neðri Volta og hluta af Sómalíu. Með gómana á lofti, lævís á svip, hrósaði hann sér fyrir að hafa skipulagt reiðufé sitt svo nákvæmlega að í Edinborg gat hann keypt án samviskubits par af skóm með fjórum gylltum hnöppum á hliðunum, tveimur á tánum og jafn mörgum á hælkappanum. Frá unglingsaldri hafði hann langað í skrautskó fremur en spariskó. Eftir að hafa uppfyllt þann draum ákvað hann að fyrsta sem hann gerði við komuna til London að nótt eða degi yrði að ganga niður á City til að sjá dýrð fjármálasviðsins sem breska heimsveldið hafði skapað öldum saman með stjórn og festu kurteisra lávarða með kúluhatt og regnhlíf þegar þeir fóru af skrifstofunni og smeygðu sér inn í svarta Rolls Royce bíla gráir í vöngum með loðnar augabrúnir eins og gæluhundar. Elías þráði að fá þannig hár, yfirbragð og augnsvip og lagði sig fram við að verða að ósk sinni. Svo hann yrði viðbúinn þegar aldurinn kæmi með grátt hár í staðinn fyrir rautt keypti hann sér rauðan gljáandi innislopp eða stofujakka með belti, rauðu að ofan en svörtu að neðan og rölti um gólf alltaf í leiguherbergi, reykti Camel í munnstykki og beið en vildi hvorki kúluhatt né regnhlíf. Hann átti brúnan hatt með mjúku barði mátulega niðurbrettu að framan svo hann gæti svipast um á götu án þess að sæist og sagði þannig hattbörð gegna sama hlutverki hjá körlum og konur í veiðiham gengu með slör á hans yngri árum. „Allt er þetta tengt leynimakki í klofinu,“ bætti hann við og hló ertnislega. Engin leið var að vera ósammála hvorki í þessu né öðru, annars hefði hann sagt helkalt: „I kill you.“ Orðalagið lærði hann af konunni sem hafði hann til húsa í London og stagaðist á því ef hann reyndi að hafa sína skoðun. „Í London lærði ég að hafa engar skoðanir en tók inn á mig breskar,“ sagði hann og kímdi í svokölluðu bláedrú-skapi en æstist við drykkju og öskraði skrækróma: „Má ég fá að tala eða I kill you!“ þótt hann talaði látlaust og hleypti engum að, ekki fremur en konan í London.

    Ferð Elíasar var ekki aðeins farin til tannlækninga heldur ætlaði hann að læra Oxfordensku lávarða sem hann hafði ekki gert í Bretavinnunni við að leggja flugvöllinn eða í Ingimarsskólanum. Með kunnáttunni ætlaði hann að kynnast enskum bókmenntum enda þráði hann ekkert heitar en að rísa upp fyrir aðstæður sínar og réðst í það að þýða Ulysses eftir Joyce. Í gegnum bréfasamband hafði honum tekist að leigja herbergi í London. Því fylgdi borð, rúm og morgun- og kvöldverður en hádegismat keypti hann á ódýrum sjálfsafgreiðslum sem hétu Lyon's Corner House. Þær voru á götuhornum með afgreiðslustúlkum sem hann sagði að hafi litið út með hárgreiðslu eins og þær biðu eftir að inn rækist og tæki matarbakka leikstjóri sem uppgötvaði þær og leiddi í kvikmyndaverið á fund hins kynæsandi Gong Man sem barði bumbuna með gljáandi vöðva í Rank Organisation sem var á hápunkti og framleiddi myndir með ljótu, langleitu fólki sem kúrði við kröpp kjör í húsum á heiðum eða í flæðarmáli. Í ömurlegu vistarverunum var dragsúgur og slík læti í veðrinu að varla heyrðist í leikurunum fyrir ýlfri í hverri glufu en þá birtist stúlkan úr Lyon´s Corner House í sínu hárskrúði. Elías sagðist ekki hafa getað lært ensku af kvikmyndunum vegna láta í veðrinu. Snotra stúlkan með hárstrókinn átti að uppfylla draum almennings og merkja sigur í svonefndum ríkum andstæðum, fegurðar og ljótleika, auðs og fátæktar, göfgi og græðgi. Elíasi fannst þetta vera fáránleiki í listum en stúlkurnar á Lyon´s sem afgreiddu nýrnabökur og mjólkurte þráðu að leika þá fríðu og losna úr breska eymdarkraminu, hætt að afgreiða nýrnabökur ofan í breska ónanista sem húktu á Lyon´s að sögn Elíasar. .  

     Konan sem leigði Elíasi tók vel á móti honum seint um kvöld og hann talaði í raun og veru í fyrsta sinn ensku sem hann taldi sig vera færan í eins og flestir Íslendingar. Fyrsta áfallið var að konan skildi hann varla og gapti. Sama var að segja um hann. En hann gapti ekki framan í konuna þótt hún vissi ekkert um Ísland og segði það vera land þakið klaka. Elías reyndi að leiða hana úr villu en hún hristi höfuðið og talaði á þann sannfærandi hátt sem einkennir Breta, að vera sannfærðir um sannfæringu sína. Á þessum tíma voru þeir ennþá heimsveldi og rétturinn til að hafa á réttu að standa var óumdeilanlegur.

   Núna heyrði hinn friðsami og orðvari Elías Mar sér til furðu að konan endurtók sífellt: „I kill you“. Hann hélt að drápsþörfin væri afleiðing af stríðinu og loftárásum á borgina, að fólk væri taugaveiklað á varðbergi gegn útlendingum, sífellt með setninguna: „I kill you.“. Jafnvel þegar hann sagði að Ísland væri ekki Eskimóaland mótmælti hún með: „I kill you!“ og hún vissi betur, hann talaði eskimóaensku. Þá grunaði hann að tilgangslaust væri að reyna að andmæla. Hún launaði undirgefnina með því að leiða hann frá eskimóaensku yfir í cocney, af því Oxfordenska væri ekki mál heldur eitthvað „made“ eða yfirstéttarlegur tilbúningur.

  Elías kom rykugur og þreyttur með lestinni frá Edinborg seint um kvöld og tók leigubíl heim til konunnar. Að lokinni samræðu opnaði hann brúnu pappaferðatöskuna með smellulokunum, tók upp hnappaskóna, fór í þá og ákvað að fara gangandi að The City til að sjá peningadýrðina. Konan sagði „I kill you“ ef hann ætlaði að ganga óraleið um illa upplýstar götur. Hann lét ekkert aftra sér og hélt af stað. Að sögn gekk hann næstum alla nóttina en fann The City með leiðsögn Teddy boys sem voru á grænum hnappaskóm. Förin náði ekki lengra en það að Elías fengi að sjá dýrðina tilsýndar. Lögreglumenn á verði stöðvuðu hann og spurðu hvað hann væri að þvælast um hánótt nálægt mesta fjármálasvæði heims. Hann reyndi að útskýra heitið, að kæmist hann til London í öðru en draumi fátæks unglings yrði fyrsta verk hans að skoða The City. Allt þar hlyti að vera glóandi gull frá enskum verndarsvæðum úti um allan heim. Lögreglan skildi hann naumast og spurðu hvaðan hann væri. Hann svaraði að þótt enginn vissi hvar landið væri en héldi að þar byggju eskimóar væru Íslendingar heiðarlegasta þjóð í heimi, þar kynni enginn að ljúga og enn síður stela. Hann bætti því við sem almælt var að hefði komið í erlendum blöðum, að maður gæti skilið töskuna sína eftir úti á götu í Reykjavík, gleymt henni en áttað sig í New York, farið í leit mánuði seinna og taskan væri enn á sínum stað, ólæst, enginn hefði einu sinni stolið úr henni rakvélarblaði. Þegar löggan heyrði að kominn var frá söguþjóð sagnamaður með týnda tösku og skort á glæpum töldu þeir að á Íslandi væri töluð eskimóaenska. Elías maldaði í móinn og kvaðst hafa lært í útvarpinu undir leiðsögn stórættaðs og mikils enskumanns, kallaður Bjúsi. Lögreglumennirnir litu undan og þóttust vita betur en sögðu ekki: „I kill you“. Í staðinn réttu þeir honum smápening og ráðlögðu honum að bíða nóttina af sér við op neðanjarðabrautarinnar og taka hana heim um leið og hún opnaði klukkan sex. Hann fylgdi ráðum þeirra, vonsvikinn, þreyttur, kaldur og fótalúinn í takkaskónum innan um róna og Teddy boys við fremur hlýjan en fúlan lokaðan inngang að London Underground ákveðinn að læra betur tungu heimsveldisins. Sem hann átti eftir að gera undir leiðsögn konunnar sem kenndi honum að blóta á cockney og segja allt vera annað hvort „bloody“ eða „I kill you“ þá losnaði hann við eskimóaenskuna sem hann lærði af Bjúsa í tungumálakennslu útvarpsins.

    Núna er Elías Mar úr sögunni. En ekki bara hann lenti í því að fólk héldi á Englandi að töluð væri eskimóaenska á Íslandi og þannig er haldið áfram:

   Frá Kaupmannahöfn ferðaðist ég á þriðja farrými á Drottningunni, eins og danska skipið hét sem hélt uppi siglingum til Íslands ásamt Gullfossi. Samferða mér en á æðra farrými var rithöfundurinn og þýðandinn Karl Ísfeld. Við tókum tal saman. Með því að ég hafði ekki upp á merkilegt umræðuefni að bjóða en Karl viðurkennt skáld, greip ég til þess að segja frá Elíasi Mar, vini hans, og vandanum í London. Karl lyftist allur upp, ekki bara vegna þess að hann var vel hífaður heldur hafði svipað hent hann í fyrstu ferðinni til London sömu erinda og Elías, að fá í munninn það sem hann kallaði ókeypis Atlee-tennur, fara líka í blóðprufur vegna óþæginda í lifrinni og stunda pöbbana. Hann gisti hjá konu sem hafði alltaf að orði: „I kill you“ og vissi að Íslendingar byggju í snjóhúsum, rifu í sig hráa seli sem gerði þá tannlausa og kámugir um trantinn af lýsi og töluðu eskimóaensku. Hún sagði þetta sannast á honum, hann héldi að hann talaði ensku en þetta væri næstum óskiljanleg eskimóaenska. Karl taldi slíkt fráleitt og trúði áfram að hann talaði vandaða ensku. Þá sagði konan: „I kill you“ ef hann héldi fram svona vitleysu. Vegna sannfæringarkrafts í orðum hennar þagnaði Karl og þorði ekki að andmæla en drakk þeim mun meiri bjór á pöbbum.

   Með því að Karl var skáld og vissi einhver ósköp af því ákvað hann að standa uppi í hárinu á konunni og vera sá sem veit hvað hann syngur. Til þess fór hann dag einn á pöbbinn, fékk sér nokkra bjóra og bætti við þremur Gin and tonic og meira að segja Schwepps lemon lime Gin and tonic. Þá gerðist undrið, andinn kom yfir hann á íslensku og ensku. „Ég var orðinn skáld á tveimur tungumálum,“ sagði hann. „Ég gat flutt vísu á báðum.“ Karl hló ögrandi framan í mig og sagði:: „Mikill andskoti!“ Eftir að hafa jafnað sig eftir innblásturinn með því að drekka bara Schvepps pomegranate ákvað hann að fara heim og kasta fram því sem hann orti. Þegar hann hafði tekið sér stöðu fyrir framan konuna þuldi hann öruggur þessa vísu:

   Ölvaðan bar mig yfir sjó

   af íslenskri strönd you see

   but I am not an Eskimó

   althoug it seems to be.

     Konan skildi ekkert, hvorki íslenskuna né enskuna, og spurði hvað þetta merkti. Hann kvaðst þá hafa strammað sig af og sagt að þetta héti vísa ort á íslensk og ensku. Þá rétti konan honum tebolla, hrista hausinn en sagði ekki: „I kill you“.

   Karl Ísfeld varð svo ánægður með sig á Drottningunni og að ég skuli hafa lært vísuna að hann bætti á sig þremur bjórum til heiðurs kveðskapnum sem mig grunar að hafi ekki borist mörgum til eyrna og ekki heldur sú hugmynd hans að fyrr eða síðar gæti konan „I kill you!“ haft rétt fyrir sér, að Íslendingar ættu eftir að týna málinu og tala í staðinn eskimóaensku.

Guðbergur Bergsson

Pistill frá Jólakettinum: Hin eilífa umstöflun

Hin eilífa umstöflun

Þegar ég heyri í fréttum að sami maður hafi keypt enn á ný sömu fjölmiðla á borð við DV dettur mér í hug sá íslenski vandi að samfélagið endurtekur sig stöðugt í einkennum sem hægt væri að kalla eilífa umstöflun. Þannig stöflun var stunduð í lélegum ryðguðum bárujárnsskúrum í sjávarþorpum þegar flatfisur var helsta útflutningsvara þjóðarinnar og vandi ríkti á erlendum mörkuðum. Eina ráðið til að hindra að hann morknaði í stæðum var að láta verkafólk vera sífellt að umstafla sama fiski, hrista burt 2017 07 08 02.15.36 02 LRgulnað saltið og kasta aftur á sama hátt í stæðu. Eina breytingin gat verið sú að sá guli var gerður hornreka í skúrnum, færður úr einu horni í annað í von um bjargráð „að utan“ og markaðir opnuðust. Öll íslensk bjargráð berast að utan af því hin innlendu eru bölvað heilagums og kjaftæði. Engum fiskverkanda datt í hug að finna eitthvað nýtt. Þannig böðlaðist verkafólk við umstöflun bölvandi í sand og ösku forstjóranum en fann enga lausn fremur en hann, fegið að fá að minnsta kosti krónu fyrir umstöflun. Með þessu móti var alltaf sami fiskur í stæðunum og sama fólk bölvandi í sand og ösku en við það opnuðust ekki markaðir í Suður Evrópu. Aftur á móti morknaði einkum þunnildið á fiskinum og fólkið varð að sama skapi þunnt í heilanum. Á öllum sviðum samfélagsins ríkir ennþá svipað. En ryðgaðir kofar og verkafólk eru úr sögunni, í staðinn komu stórhýsi og háskólafólk. En alltaf sama umstöflun, þó með vissum tilfærslum. Þetta á einkum við um sístöflun á menntafólki með fremur morkin þunnildi. Til dæmis innan fjölmiðla. Þar er sífellt verið að færa til og frá sama fólkið sem brýtur ekki upp á neinu nema fíflalátum sem það telur vera fyndni. Þótt samfélagið sé fámennt getur maður ekki fylgst með allri umstöflun og tilfærslum en hið gamalgróna blasir við í svonefndum kynjahlutföllum. Sem einkennast af því að konum er núna staflað og umstaflað hvarvetna. Þær eru tilfærðar en gera hvorki meira né minna gagn en karlar í sömu stöflun og tilfærslum sem sannar að hugvitið á ekki heima í kynfærunum. Með þessu móti blómgast meðalmennska og smæð. Hindranir af þessum toga gætu með tímanum valdið sjálfsmorðum, ekki bara hvað varðar unga menn og tunguna heldur fjölmiðla og bókmenntir. Ein ástæðan fyrir salthúserfðum okkar kringum flatfiskinn er léleg menntun og kennsla. Í henni er konum staflað og umstaflað látlaust við kennarapúltin svo megna lyktin angar úr skólastofunum, ekki sú gamla af golþorskinum heldur hin nýja af ýsunni. Þótt ungt fólk komi með próf frá útlöndum færir það ekkert boðlegt og finnur varla fyrir hættulegri umstöflun og tilfærslum. Það horfir bara á sjónvarpið og brýtur heilann um hvort Jón og Gunna verði nú færð á næstunni í nýja þáttaröð eða í aðra fjölmiðla og njóti áfram frelsis til að bera á borð hæfileg þunnildi. Í stuttu máli er hin eilífa íslenska umstöflun þannig.   

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3