Gudbergsstofa 940x250 013

Pistill: Evrópsk vesæld og undirgefni

Evrópsk vesæld og undirgefni

Það var engin tilviljun að Evo Morales, forseti Bólivíu, var kyrrsettur á flugvelli í Vínarborg á heimleið frá þinghaldi með öðrum leiðtogum í Moskvu. Ef marka má fréttir frá heimalandi hans kröfðust Bandaríkin þess að hann skilaði þeim Snowden, sem kom upp um njósnir þeirra. Það er ekkert nýtt að bandarísk stjórnvöld gefi sér ýmislegt eftir sinni hentisemi. Að sjálfsögðu komu þau í þessu máli ekki beint að atburðinum heldur beittu fyrir sig hálfnýlendunum í Evrópu og létu þær banna flug forsetans yfir löndum sínum. Krafan er sérstæð og hlýðnin furðuleg, vegna þess að Snowden hefur sannað fyrir skömmu að Bandaríkin njósna um allt í löndum Evrópusambandsins. Yfirgangurinn og undirgefnin eru samt á vissan hátt eðlileg í sögulegu samhengi: frá síðustu heimsstyrjöld, en einkum í kalda stríðinu og í samtímanum, hafa þjóðir Evrópu lokað augunum fyrir því að bandarískar herflugvélar fljúga, leynt og ljóst, um lofthelgi þeirra með gereyðingarvopn og réttlausa fanga til geymslu án dóms og laga á öruggum stöðum víða um heim. En fram að þessu hafa bandarísk stjórnvöld ekki heimtað að forseti lýðveldis verði kyrrsettur og leitað í flugvél hans að manni sem þau ákveða af eigin geðþótta að leynist þar. Kannski er ekki furða að Spánn hafi orðið við kallinu, Bólivía var spænsk nýlenda og síðan undir bandarísku eftirliti sem studdi þar einræðisherrana. CIA drap Che Guevara í Bólivíu, reyndar með sovétaðstoð. Leynilögreglan hefði ekki fundið hann án Taníu, fölsku skæruliðakonunnar sem var send til þess úr einu af hinum svonefndu Alþýðulýðveldum. Andi gömlu nýlenduveldanna og samtímans er ekki úr sögunni. Bandaríkin eiga bágt með að sætta sig við þá staðreynd að löndin í Suður Ameríku eru að mestu laus úr böndum auðhringa þeirra. Og ekki er langt síðan að konungur Spánar sagði þjóðhöfðingja Venesúela, Hugo Chavez, að halda kjafti og þegja eins og landið væri ennþá spænsk nýlenda í eigu hans. Annað skiptir einnig og meira máli hvað Morales varðar: Obama vildi koma þegnum sínum á óvart og hressa andlegt ástand þeirra með pólitísku kraftaverki, handsama Snowden í flugvél Morales og veifa dólgnum og föðurlandssvikaranum sem sigurtákni heimslögreglunnar á þjóðhátíðardaginn. Hann er í dag, 4. júlí. Kænska kanaleiðtogans brást og það er óhætt að segja að lokum í þessari grein, að fátt er ömurlegra en heimsveldi að falli komið en heldur samt að það standi teinrétt, stutt af evrópskri nútímavesæld og undirgefni.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Eygló á Alþingi

Eygló á Alþingi

Það verður ekki annað sagt um stjórnmálamenn en það að þeir eru mannlegir á sérstakan hátt, þann sem varðar þá sjálfa þegar þar að kemur að mat er lagt á sérhæfð og vandasöm störf þeirra og niðurstaðan er sú að þeir hafa ekki „staðið sig í stykkinu“. Ef upp um þá kemst eru viðbrögðin þau sömu og venjulegs manns eða prestsins sem varð það á að ruglast á flösku með lýsi og flösku með messuvíni. Afleiðingin var sú að foreldrar sem gengu til altaris með fermingarbörnum sínum skildu ekkert í bragðinu og gubbuðu undir kirkjuveggnum. Presturinn eltir hjörðina og sagði yfir ælunni sér til afsökunar: „Það er auðvelt að vera vitur eftirá en aldrei hefði ég trúað á mig, að ég mundi ruglast á þorskalýsi og þríhelgu blóði. Batnandi manni er best að lifa, ég bið alla presta að stilla saman strengi í því að greina lýsi frá dreyra Frelsarans. 

   Eftir fréttum að dæma hefur hin snjalla Eygló Harðardóttir lýst því yfir á Alþingi í ræðu, að næstum engin opinber stofnun sé undanskilin gagnrýni hvað varðar íbúðalánasjóð, þótt hann hafi fyrir daga hrunsins einungis verið í höndum stjórnmálaafla sem stóðu að því en sungu samt á loforðanótum fyrir nokkrum mánuðum sama sönginn, svo kát og létt þjóðin kaus þau á ný.

   Nú eru nýir tímar á Alþingi með unglingafjölda og Eygló vill að grænjaxlar og gamla liðið læri af reynslunni. Það er óvitlaust á þessu stigi málsins að krefjast varfærni, svo almenningur geri sér grein fyrir að hann kaus fólk sem verður vitrara með hverri nýrri ákvörðun. Til þess að allar takist með alþingissóma og endi á farsælan hátt er brýnt „að ná breiðri samstöðu sem mun nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem framundan er“. Eygló er orðsnjöll, frumleg í hugsun og laus við orðaleppa „og frasa“ í málflutningi. Fyrir bragðið er til mikils mælst af þessari framsóknarkonu. Hvorki verður af henni skafið né á hana logið að hún hefur bein í nefinu og lipra tungu í munninum fyrir neðan það, eins og næstum nafna hennar sem er núna á vegum Sameinuðu þjóðanna að leysa búrkur frá nefi á afgönskum konum til að gera þær sýnilega andlitsdjarfar og hreinlyndar á sama hátt og systurnar í norðrinu. 

Guðbergur Bergsson

Pistlar eftir Guðberg Bergsson

Hér munu reglulega birtast nýjir pistlar eftir Guðberg Bergsson um þjóðmál og hin ýmsu málefni. Hægt er að tengjast beint inn á pistlana með því að slá inn www.gudbergur.is 

Öll notkun og opinber birting á efni og innihaldi pistla Guðbergs Bergssonar á þessari síðu er óheimil án skriflegs leyfis.
Tengiliður: Guðni Þorbjörnsson - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3