Gudbergsstofa 940x250 013

Er til íslensk þjóðernishyggja og útlendingahatur?

Það hefur aldrei ríkt þjóðernishyggja og útlendingahatur á Íslandi heldur einangrun og fáfræði. Við erum ófærir um að móta stefnu í anda útlendingahaturs og þjóðernis. Allt sem svipar til þjóðerniskenndar er átthagatengt mont fremur en skipulögð hugsun um yfirburði íslenska kynstofnsins. Það lengsta sem við höfum komist í hroka er að halda að við séum komin af Noregskonungum sem hefur yfir sér blæ barnaskapar og tilfinningasemi.

   Þeir sem eru ennþá gæddir minni og fæddust fyrir tíma seinni heimsstyrjaldarinnar muna eftir þessum barnaskap sem lýsti sér einkum í sveitahroka. Auk þess taldi fólk úr sveitum eða sýslum að það væri gætt ofurgáfum og yfirburðum vegna þess að það fæddist í vissum dal eða landshluta. Mest bar á þessu hjá Þingeyingum, Skagfirðingar höfðu líka talsverða yfirburði yfir aðra, Dalamenn í minna mæli, Borgfirðingar fylgdu fast á eftir, en Skaftfellingar létu nægja að vera drjúgir með sig og draga seiminn.

   Mestu vitleysingar Íslands voru af Suðurnesjum með kvarnir þorsks í stað heila, Snæfellingar komu þar á eftir. Börn frá þessum bjánastöðum fundu glöggt flokkun einkenna mannvits og fábjánaháttar ef þau voru send í sveit til að vinna fyrir sér og „mannast“ hjá bændum. Sá andlegi munaður að njóta þess „að mannast í sveit“ gat verið fróðlegur, barnið styrktist við það að kynnast rammíslensku eðli, eins og það var kallað. Krakkar sem komu heim úr sveit voru reynslunni ríkari. Þau höfðu lært að vorkenna ekki sjálfum sér heldur uxu þau andlega á þann hátt sem mótlætið getur kennt sálinni. Fyrir bragðið urðu þau síðar á ævinni ólík vælukjóakynslóðinni núna sem er afturendinn á framhlið íslenskrar sveitamenningar sem andar jafn fúlum vindi að framan og aftan.

   Í fari Íslendinga hefur ekki verið útlendingahatur heldur fælni í þeirra garð. Ástæðan fyrir þessu er sú að landsmenn hafa aldrei fórna lífi sínu fyrir ættjörðina, aldrei þurft að berjast við nágrannaþjóðir og hata þær. Líklega erum við ekki einu sinni þjóð í venjulegum skilningi heldur eyjaskeggjar og íslenskir karlmenn eru þar af leiðandi ekki karlmenn í evrópskum skilningi og konur ekki heldur konur heldur kvenfólk. Öll erum við leiðitöm hjú vegna sögu okkar og þjóðfélagshátta.  

   Maður með sæmilegt minni sem á rætur að rekja til íslenskra aðstæðna „fyrir stríð“, eins og sagt er, getur nefnt dæmi úr forðabúri íslenskrar „fjandsemi“, en íslensk fjandsemi er fráleitt hatur. Fyrir seina stríð bar hvergi á samstöðu með ofsóttum, flóttafólki og meðbræðrum nema hjá sósíalistum og alþýðuflokksfólki; yfirleitt var íhaldsfólk laust við andúð nema á kommúnistum. Það sama var ekki hægt að segja um framsóknarmenn. Í fari þeirra var samt fremur tilfinning fyrir eigin yfirburðum en andúð eða hatur á „allra þjóða kvikindum“. Allir, háir og lágir, notuðu reyndar þetta orðalag en helst þeir sem voru farmenn og höfðu „siglt um öll heimsins höf“. Að hafa verið innan um „kvikindin“ brá hetjuljóma yfir sjómenn. Svipaður ljómi var yfir bónda sem hýsti útlending sem hafði komið til þess að vinna og læra íslensku. Talið var að hvergi væri hægt að læra „málið“ nema í sveit, helst í afdal með „skrýtnum körlum og kerlingum“. Enn hafa menn dálæti á þannig útigangsfólki og bera virðingu fyrir því en ekki útigangsfólki samtímans; það er drullupakk.

   Sem sönnun fyrir því að Íslendingar hafi aldrei verið útlendingahatarar þegar á hólminn er komið er hernámsdæmið. Í því voru menn samt beggja blands, eins og þessi saga ber með sér:

   Einu sinni á þeim þeim löngu liðnu árum þegar „allir voru að rífast um stjórnmál“ var ég staddur á gangi í sjúkrahúsi. Tveir karlar stóðu þar og voru auðvitað að þjarka. Allt í einu fóru þeir í hár saman yfir negrum og auðheyrt að annar var kommúnisti en hinn íhaldskarl. Mennirnir voru það sem hægt væri að kalla fjandvini með gagnkvæman áhuga og aðdáun á einstrengingslegum skoðunum. Í deilunni fann komminn „blökkumönnum“ allt til ágætis og kvað þá vera kúgaða af hvítum, einkum auðvaldinu í Ameríku, en hinn taldi þeim allt til foráttu fyrir leti og sóðaskap, svo af þeim stafaði negrafýla. Komminn skellti þeirri skuld á ræningjana í Wall Street sem stælu jafnvel af þeim sápunni. Þannig þrefuðu þeir þangað til að íhaldskarlinn fann ráð til að athuga hvort komminn væri jafn mikill negravinur og hann vildi vera láta og spurði:

   Vildi þú að dóttir þín giftist negra og þú yrði afi kynblendingskrakka?         

   Komminn brást ókvæða við og sagði:

   Ég mundi aldrei gifta dóttur mína niggara".

   Þegar blökkumaðurinn var orðinn niggari urðu andstæðingarnir á sama róli og ræddu mærðarlega um „misjafna sauði í mörgu fé“ og ekki hafi allt verið upp á sitt besta hjá ameríska úrvaldsliðið sem átti að verja okkur gegn Hitler. Því til sönnunar fór kommúnistinn með söngtexta úr revíunni Halló Ameríka:

     Áður þurfti bóndinn að borga fyrir kúna

     ef bola þurfti að sækja en nú er þessu breytt,

     hér er komið úrvalslið frá Ameríku núna

     sem óðar býðst að gera þetta fyrir ekki neitt.

      En ef að þetta úrvalslið iðkar kálfasmíði

      hverju haldið þið að úrhrakið í Ameríku ríði?

Nú hljóp í karlana rótgróin ást á ljóðagerð. Þeim fannst stuðlasetning og rímið vera frábært og brutu heilann um hvort ljóðið væri ort af Alþingismanni, margir þeirra væru skáldmæltir og sönghneigðir en hefðu í þessu tilviki ort undir dulnefni við samningu revíunnar. Þeir glöddust yfir kvikindishætti bæði í garð útlendinga og sveitadurga og töldu að hagur bóndans hefði batnað við að þurfa ekki á tudda að halda, en samt hefði mjólkurlítinn ekki lækkað.

   Meðan þessu fór fram höfðu konur hópast á ganginum og skoðuðu frottésloppa hver annarrar en við að heyra ánægju karlanna yfir klúru vísunni skárust þær í leikinn og sögðust hrífast meir af ljóði eftir konu sem fór fínt í sakirnar og orti „mitt er þitt og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina“. Þetta sló karlana út af laginu, þeir hörfuðu inn á stofuna sína en konurnar fóru að brjóta heilann um hver ástæðan væri fyrir því að margir fengju þvagfærasýkingu á Blönduósi en allir losnuðu við hana á Sauðárkróki. Þær sættust á að eitthvað væri athugavert við vatnið í Blöndu.   

   Í seinna stríðinu voru framsóknarmenn, og reyndar fleiri, heitir fyrst út í breska herinn en síðan þann ameríska af því að lauslátu kvensurnar á heimskusvæðunum fór fremur í ástandið en í kaupavinnu. Margir sem sendir voru í sveit á þessum árum „til þess að mannast“  urðu vitni að heift bænda sem hörmuðu liðna tíð þegar húsbóndinn las upp úr Kapítólu á kvöldin fyrir vinnufólkið sem kepptist á meðan við að spinna og þæfa eða stoppa í sokkaplögg. Á bestu árum bændamenningarinnar var enginn á bæ svo frjáls að hann ætti sína bók nema bóndinn sem las. Sá siður þekktist þá ekki á meginlandi Evrópu, en maður var látinn lesa heppilegar bækur fyrir Marie Antoinette sem var samt hálshöggvin í byltingunni í Frakklandi árið 1789. Hún fékk aldrei að lesa sjálf. Það andlega ofbeldið að útvalinn maður læsi bók fyrir alla tíðkaðist síðast í Versölum sólkonungsins, en í íslenskum sveitum var þetta við lýði fram á tuttugustu öldina og lofsungið sem „bændamenning“.

    Hatrið á hernámsliðinu hvarf um leið og stjórnmálamenn og aðrir fundu að hægt væri að græða á því. Eins og oft vill verða voru tvær hliðar á sama máli: hægt var að græða á hernum en missa um leið bestu konur í bransann. Þá fékk „kúfótur“, eins og ég man að framsóknarhetjan var kölluð, líklega flokkskonu sína til að halda skrá yfir „kanamellurnar“. Hvort það tókst að reka margar kanamellur í mannbætandi kaupavinnu hefur líklega ekki verið rannsakað af femínistum. En hvað sem því líður náði forræðishyggjan til hvatalífsins. Þá gerðist það sem oft vill verða, að samtímis siðferðisátaki verður hið gagnstæða, trúmennskan hverfur og í staðinn kemur siðferðisleti: bændur flykktust úr sveitum til Keflavíkur í Kanann eða til Reykjavíkur og hafa að miklu leyti haldið þar sínum venjum að líta á „kvenpeninginn“ sem kaupakonur eða sjálfsögð „stykki til að stinga í“. Það þótti sjálfsagt.

   Svona var lífið áður á Íslandi, ekki síst í sveitum með sínar ómetanlegu náttúruperlur sem eru núna ekki bara augnayndi heldur tekjulind vegna ásóknar erlendra ferðamanna og allra þjóða kvikinda. Innlendir, áður dalabændur, hafa komist að því að það er jafn gott að græða á erlendum ferðamönnum og áður á ameríska hernum á Vellinum. Slíkt þykir sjálfsagt þótt gróðanum fylgi níðsla á fósturmoldinni; í þessu tilviki er það ókey og hið besta mál að kasta náttúruperlum sveitanna fyrir svín.

Víkingarottur

Fræðimönnum og öðrum hefur lengi verið gjarnt að spyrja: „Hver voru örlög Íslendinga á Grænlandi og hvert fóru þeir?“

    Margt í þessum efnum hefur verið borið fram sem tilgátur eða skáldskapur í staðinn fyrir rannsóknir. Þær eru of dýrar og erfiðar fyrir fámenna þjóð sem temur sér dugnað við óskhyggju í bland við púlvinnu. Okkur „lætur að látast“, eins og skáldið orti, finnst gaman að bíta okkur í tilbúnað og naga hann inn að beini án þess að finna merginn, hvorki merg málsins né annars, en hreykjum okkur sem er undirstaða mikilmennsku. Með sjálfsvitund þessarar „mennsku“ í huga er undarlegt að ekki skuli hafa borist hér á prent fréttin um „víkingarotturnar“ svonefndu sem munu hafa komið til eyjarinnar Madeira á svipuðum tíma og Grænland tæmdist af öðrum en skrælingjum, fjögur hundruð árum áður en Portúgalar námu land á eynni árið 1425 með Tristã Vaz Teixeira og João Gonçalves Zarco. Þegar félagarnir stigu af skipsfjöl sáu þeir ekki bara gæði jarðar heldur einkennilegar rottur, sem þeir áttu ekki að venjast í heimalandi sínu. Bitvargurinn heitir á portúgölsku nútímans ratos domésticos („heimilisrottur“ í orðréttri þýðingu) en á latínu Mus musculus (vöðvarotta í orðréttri þýðingu eða líkamsræktarrotta). Tegundin er ekki til í Portúgal svo hún hefur ekki borist þaðan með portúgölskum sæförum heldur öðrum. Hverjir það voru er rannsakað og augu vísindamanna beinst jafnvel að rottum á Grænlandi.

   Sannað er með DNA rannsóknum að rottan kom til Madeira á tímabilinu frá árinu 1036 eða síðar. Á Madeira fjölgað hún sér svo gríðarlega í hinu milda loftslagi að hún mun hafa eytt að stórum hluta hinu upprunalega fuglalífi, einkum smáfuglum sem hún réði við, enda vöðvatröll, þangað til að leðurblökur bárust með Portúgölunum. Þær höfðu betur í viðureigninni við rotturnar og komu í veg fyrir náttúruslys en urðu þá að leðurblökuplágu. Þannig var eins dauði annars brauð í rottu- og leðurblökuheiminum eða öllu heldur tók ein plágan við af annarri, svipað og í hinu frjálsa samkeppniskerfi auðvaldsins. Vöðvarotturnar éta litlu fjármálafuglana en þegar leðurblökur bankanna koma til skjalanna leggja þær heimilisrottur eyjarinnar í rúst svo eina staðan í stjórnmáladæminu er að forsætisráðherrann færi sér í nyt eðli eyjarskeggja - „að láta að látast“ - og skáldi loforð um að eyjan verði aftur skógi vaxin milli fjalls og fjöru svo hunang drjúpi af hverju strái; hann geti ekki annað en staðið við loforðin.

   Ekki er langt síðan farið var að rannsaka undrið á Madeira og ekki fyrr en á þriðjudaginn var, að portúgalska fréttastofan Lusa sendi fyrst út frétt um „víkingarottuna“ þótt spænska vísindastofnunin (CSIC) hafi verið að rannsaka hana í nokkurn tíma, eftir að forn rottubein fundust í jarðlögum á Ponta de São Lourenço. Samkvæmt því sem breska tímaritið Proceedings of the Royal Society B birti, þá hefur rottan aðeins getað borist með skipi, og fyrst erfðafrumur hennar, „frumubakteríur“, erfast bara í gegnum kvendýrið sanna beinarannsóknir að tegundin er aðeins til í Skandínavíu og Norður Þýskalandi en fágæt þar. Að niðurstöð fenginni er ekki fjarri lagi að ætla að rottan hafi borist frá Skandínavíu til Grænlands, gegnum Ísland, kannski á skipi Eiríks Rauða, og síðan af Grænlandi til Madeira með íslenskum landnemum á flótta undan sjálfum sér og stjórnleysi sínu, svipað því sem gerist núna á Íslandi: fólk flýr til Noregs, upprunalegs ættlands síns - og rottunnar? - en ólíklegt að það leiti til eyja í Atlantshafi nema kannski í frí.

   Þess má geta til frekari fróðleiks að leifar af beinum úr „víkingarottum“ hafa fundist á Asoreyjum ef ekki líka á Kanaríeyjum. Örugg vissa liggur ekki fyrir, en beinin á Madeira fundust ekki fyrr en á árunum 2010 og 2011 svo allt getur gerst í nánustu framtíð. Beinin eru ekki stór en áhuginn á þeim mikill og fer vaxandi. Núna eru komnir á vettvang þýskir vísindamenn, auk hinna spænsku, og spurt:    

   Hvaðan komu víkingarotturnar?

   Í portúgölskum heimildum er hvergi getið að víkingar hafi komið til Madeira en fornleifarannsóknir benda til þess að þeir hafi alltaf haft með sér „Mus musculus, líklega til matar og étið upp til agna og engin sloppið út í náttúruna nema á Madeira. Ekki er vitað hvort norrænir menn hafi sest þarna að eða bara komið við og siglt út í óvissuna með sínar rottur. Um þær segir Josep Antonio Alcover eftir rannsóknir sínar:   

   „Með komunni hefur rottan verið líffræðilegt slys, hún eyddi tveimur þriðja hluta fugla á eyjunum og breytti þar lífkerfinu 400 árum áður en vitað var vísindalega um tilvist hennar.“       

Hér eru myndir af beinunum og staðnum, Ponta de São Lorenço, þar sem þau fundust. 

Guðbergur Bergsson

 

Pistill: Vindur og vatn

Það hefur löngum verið mikill vindur í okkur Íslendingum, til að mynda yfir „íslenska“ vatninu og ágæti þess, hvað það sé gott til drykkjar, svalandi og ómengað í öllum lækjum og ám, ef ekki hvarvetna á holóttum steinum, ef það rignir. Á síðustu áratugum hefur vindurinn (eða belgingurinn) óneitanlega verið hvað mestur í tengslum við stórvirkjanir á fossum og fljótum. Þannig er fullyrt að hægt sé að fá hreina, óþrjótandi vatnsorku og að Ísland geti hugsanlega orðið orkustöð Evrópu með útflutning á rafmagni í gegnum sæstreng. Því er haldið fram með glaðlegum tilgáturökum, að nóg sé til af vatni á Íslandi og þannig verði það um aldur og ævi hér á landi.

    En er svonefnd „beislun“ vatns í fljótum rétt, hagkvæmust eða hreinust?

    Kannski. Kannski ekki.

Guðbergur Bergsson - Mynd: Guðni Þorbjörnsson    Í fréttum um daginn var fjallað með aðdáun um það að Danir framleiddu hvað mesta orku í Evrópu með vindmyllum. Ég man ekki hvað þeir fá stóran hluta af orkuþörf sinni með því að reisa þær, hins vegar veit ég að Portúgalar fá rúm 60% orku sinnar með þannig virkjunarmáta og aðferðin eykst. Hún er stöðugt meira notuð til sjávar og sveitar. Líklega fyrir bragðið er Portúgal það land í Evrópu sem notar mesta vindorku, en vegna þess að það er ekki ofarlega á baugi í fréttum fer slíkt framhjá orkumálaráðherrum.

   Sá er gallinn við vindorkuna í Portúgal að vindar þar geta verið með ýmsu móti, ekki stöðugir, stundum sterkir, stundum litlir og allt þar í milli. Fyrir bragðið fer framleiðslan talsvert eftir þessu duttlungum náttúrunnar. Hún er misjöfn hvað gjafmildi á vindinn varðar eftir árum, hvort það eru þurrkar í landinu eða votar árstíðir.

   Nú vita allir sem á Íslandi búa að hér blása stríðir vindar. Það er rok dag og nótt næstum allan ársins hring, svo við ættum í þessu að vera samkeppnisfærir að minnsta kosti við Portúgali, en til þess að svo verði þurfum við að missa talsvert trúna á vatnsorkuna og hefja trúna móti himni og færa hana yfir á vindinn. Vindurinn hefur þann kost að varla er hægt að skemma hann með orkuframkvæmdum, eins og gert hefur verið við landið. Það að beisla vindinn merkir ekki náttúruspjöll. Vindurinn er þar að auki allra eign, svipað og himinninn, og erfitt að setja á hann kvóta og hefja vindkvótakonunga til vegs og virðingar. Um eiginleika og auðlegð vindsins gilda önnur lögmál en um fiskinn í sjónum. Það þarf ekki að semja við landeigendur nema að litlu leyti sem stafar af því að vindmyllur er hægt að reisa næstum hvarvetna, jafnvel á útskerjum. Að nota vindorkuna leiðir líka til þess að minna þarf að reisa af möstrum út um allar jarðir og leggja háspennulínur sem hengja útsýnið til fjalla og heiða og valda sjónmengun.

   Hver veit nema hægt sé að reisa vindmyllur við hliðina á verksmiðjum svo þannig fái þær orkuna „beint í æð ... úr myllunni“. Ég held að vindmyllurnar gætu orðið mikill fegurðarauki fyrir álverin sem tröllríða þjóðinni og koma í veg fyrir það að hún fyllist bjartsýni. Álverin hafa haft niðurdrepandi og eyðandi áhrif, ekki bara á landið, með því að skemma náttúruna, heldur lagst á sjálft „íslendingseðlið“ sem svo er kallað og „trúna á landið“ eins og það heitir. Ástæðan fyrir þessu er sú, að manneskjan getur ekki bundið trú við mangert landslag: uppistöðulón og annað í þá veru. Trúin er bundin því sem er ósnortið og óhlutbundið. Svipað er að segja um þjóðerniskenndina, vitundina um að maður tilheyri ekki bara sínu þrönga umhverfi heldur föðurlandinu og móður jörð. Trúna einkennir tengsl við eitthvað sem er ofar einstaklingnum, sem trúir, en þetta sem er ofar getu hans skaðar hann ekki heldur auðgar vitund hans og lífsánægju.

   Kannski fáum við loksins trú ekki bara á vindinn heldur líka á rokið, ef þetta rammíslenska afl auðgar okkur?

Guðbergur Bergsson

Pistill: Hammerskjöld og bandarískt hommahatur

Hammerskjöld og bandarískt hommahatur

Maður hefur árum saman verið að lesa í erlendum blöðum og tímaritum um dauða fulltrúa Sameinuðu Þjóðanna, Hammerskjölds sem fórst í flugslysi yfir Sambíu árið 1961. Í því máli er jafnan farið leynt sökum varúðar, hræðslu við sannleikann hjá NAS eða Bandaríska þjóðaröryggisstofnuninni, eins og hún heitir á íslensku. Nú er málið komið upp á ný vegna þess að við lifum á tímum hreinsana: „ekkert nema sannleikann“ eins og þulið er þegar kristnir valdamenn leggja hönd á Biblíuna og vinna heit, að fara aldrei með lygi. Á árunum kringum 1960 var sannleikurinn í vestrænu lýðræði á vegum Bandaríkjanna og fáir þorðu að efast um það án þess að eiga á hættu að vera úthúða sem kommúnistar og þeim sagt að fara til Síberíuvist í hinum „algóðu Sovétríkjum“.

   Að sjálfsögðu hafa fáir hér á landi vitað með vissu um örlög Hammerskjölds, slysið talið dularfullt og engin leið að finna ástæðuna fyrir því. Slysið var eitt af leyndarmálum sögunnar. Jafnvel bandarískar rannsóknir gátu ekki komist að neinni vissu, sem var fremur ótrúlegt, enda eru þær vísindalegar, nákvæmar og leiða til niðurstöðu. Aðrar voru getgátur eða unnar af getuleysi.

   Hvað sem íslenskum getgátum líður og fylgd við forysturíkið á sviði lýðræðis, þá heyrði maður umræður um dauða eða morðið á Hammerskjöld að minnsta kosti á Spáni hjá mönnum sem unnu á vegum Sameinuðu þjóðanna og höfðu jafnvel verið samstarfsmenn hans. Þetta voru útlagar úr Spænska borgarastríðinu, lýðveldissinnar sem gátu heimsótt ættlandið enda margir komnir með bandarískt vegabréf, suður-amerískt, breskt og jafnvel grískt. Svo þeir voru tryggðir gegn lögreglu einræðis í höndum Francos. Allar slíkar umræður fóru fram í þröngum hópum fyrrum útlaga sem höfðu snúið aftur heim en lét fara lítið fyrir sér, hálfgerðir útlagar í eigin landi eða einhvers staðar á milli föðurlandsins og þjóða sem höfðu veitt þeim vernd.

   Hjá Sameinuðu þjóðunum eða í tengslum við stofnunina unnu margir þannig menn, karlar og konur. Þegar komið var til föðurlandsins, sem hafði hafnað þeim, var engu líkara en fengið væri frelsi til opinnar umræðu, þótt í einræðisríki væri. Þetta var afar furðu- en eftirtektarvert fyrir þann sem þekkti ekki í raun þannig aðstæður, að gera sér grein fyrir að innan einræðis gæti verið meira frelsi en í lýðræði. Ástæðan var trúnaður, sameiginlegi óttinn, reynsla af ótta og ofsóknum sem þjappaði mönnum í hóp trúnaðarvina. Samstaðan var undir þessum merkjum: Annað hvort ertu með mér eða á móti mér. Þú verður að sýna hundslega tryggð og þögn. Þetta voru eins og trúarsöfnuðir sem ala með sér ofstæki sem er sprottið af skilyrðislausri ást á einhverju í ætt við hið guðlega. Slíkt traust er hvergi sjáanlegt núna nema innan íslams.

    Í bræðralagi spænskra útlaga, sumra í kjarna Sameinuðu þjóðanna, var altalað að Hammerskjöld hefði verið myrtur af bandarísku leyniþjónustunni, í tilbúnu flugslysi (þannig flugslys þekktust hjá Franco, Castro og fleirum) meðal annars vegna þess að hann var flokkaður sem „ótryggur“ laumuhommi og hafði meðal annars staðið að því að skáld, laumuhommi, fengi Nóbelsverðlaunin. Óttinn við kynvillinga var algengur á þessum árum. Stjórnvöld héldu að auðvelt væri að múta þeim, enda væri kynvilla vísir að svikum og öðru skaðlegu fyrir þjóðfélagið. Mesta hættan var að þannig menn kæmust í stór embætti eins og sendiráð, þar mundu þeir stunda njósnir fyrir Sovétríkin, þótt þau  fordæmdu villuna og gerðu menn haldna henni næstum því réttdræpa. Svona áttu kynvillingar í lýðræðisríkjum að vera, öfugsnúnir á borð við gyðinga; algerir öfuguggar! Í Bandaríkjunum voru þeir ekki það illa staddir að þeir væru beinlínis ofsóttir heldur fordæmdir. Þeim var til dæmis ekki, eins og gyðingum og svörtum, bannað að fara á veitingahús þar sem hvítir og gagnkynhneigðir gæddu sér á hamborgurum og kjúklingabitum.

   Um leyndarmál Hammerskjöld heyrði maður rætt á Spáni í þögulum hópum, oft kynvillinga. Hægt var að trúa þeim fyrir væntanlegum sannleika vegna þess að á Spáni voru þeir ofsóttir. Ef það komst upp um þá voru þeir sendir á „vissan stað“ í héraðinu Murcia og hneigð þeirra leiðrétt með ýmsum ráðum sem lögreglan, sálfræðingar og „sannar konur“ réðu yfir með karlmennskusprautum, svipum, raflosti í punginn og myndum af  kaþólskum samförum við holdmiklar konur.

   Nú eru hinir dularfullu spænsku útlagar löngu dánir sem töluðu um hið „einkennilega mál“ sem tengdist Hammerskjöld. En afkomendurnir hafa komist að því að feður þeirra voru laumuhommar hjá Sameinuðu þjóðunum og það hefur vakið áhuga fremur en fordóma, að vera undan kynvillingum, og þetta fólk hefur fiskað eftir sögum og  harmað það að hafa ekki verið þögulir hlustendur eða uppi á þeim tíma þegar „sannleikurinn um leyndarmálið“ var að finna hjá fáum útvöldum.

   Vissulega eru okkar tímar fábrotnir, án leyndar og launungar. Það er látið eins og lygasannleikurinn sé hið eina boðlega í fari fólks og þjóða. Jafnvel hinir áður skaðlegu kynvillingar eru bara sakleysislega samkynhneigðir, viðurkenndir af kirkjunni og koma hvarvetna fram skælbrosandi og hóflega leiðinlegir. 

 Guðbergur Bergsson

Pistill: Guðný Rósa í Hverfisgalleríi

Guðný Rósa  í Hverfisgalleríi

Það er enginn hægðarleikur sem Guðný Rósa Ingimarsdóttir hefur tekið sér fyrir hendur og leyst á sviði listar og sýnir afrakstur af dirfsku sinni með kyrrum hætti til 14. þessa mánaðar í Hverfisgallerí, Hverfisgötu 4, 101 Reykjavík. Hún hefur hætt sér út í það sem hægt er að kalla áhættuíþrótt í myndlist, að laða fram margvísleg blæbrigði forma og innihalds í næstum því einlitum verkum. Margir halda að þau geti ekki dregið að sér athygli og auga venjulegs manns, allt hljóti að vera sjáanlegt í einni sjónhendingu, að hér sé ekkert fyrir hann að skoða, hið mikla eða litla Ekkert hljóti bara að vera fyrir tilgerðarlega. Öðru nær. Áhorfandinn hverfur hér umsvifalaust inn í hina ýmsu tíma: fortíð, samtíð og framtíð. Hann sér mátulegar tilvísanir í gamlar hefðir, til dæmis handavinnu kvenna sem hekluðu dúka, en um leið svífur hugurinn með hjálp augans inn í endaleysi sem er jafnframt áþreifanleg nálægð. Myndirnar eru svipaðar að stærð, hengdar í sömu hæð á veggi svo áhorfandinn þreifar sig áfram með fætur og sjón uns fundið er hið erfiða jafnvægi í listinni. Hún er í mótsögn við óreiðuna í samfélagi okkar og í heiminum um þessar mundir. Ekki er handbragðið síðra en hið sjáanlega eða dulda. Og ofan á þetta bætist hljóðlátt skop; skopast er að formunum og litnum á fínlegan hátt sem er laus við listrænna tilgerð. Reyndar býður fíngerð list upp á tilgerð, þá tegund sem er vinsælt tískufyrirbrigði. Enda er tískan áreynslulaus, þægileg fyrir leiðitama en á allan máta prýðileg til að breyta til, þótt ekki sé nema breyting breytinganna vegna með svolítilli stílfæringu. Hér er ekki um slíkt að ræða. Hér er ekki smjaðrað fyrir sjóninni. Hér er ekki á ferðinni löngun til vinsælda. Hér er ekki verið að gefa listunnendum smávegis undir fótinn. Hér er ekki nýbökuð myndlistarkona með smekklegan lærdóm úr listaháskólanum, hinni úr sér gegnu og trénuðu akademíu nútímans; heldur hvað? Því er vandsvarað. Það er ógerlegt að gefa öruggt svar í listum við því sem er nátengt eðli og lífi okkar.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3