Gudbergsstofa 940x250 013

Pistill: Í pípum daganna

Í pípum daganna

Það er óhætt að segja að ýmislegt fróðlegt og eggjandi hafi verið í samfélagspípunum íslensku að undanförnu. Jafnvel þeir sem horfa aldrei á Sjónvarp geta ekki annað en hafa heyrt ávæning af gaulinu eða frétt til dæmis af hinum fræknu Reykjavíkurdætrum og miklum og frjóum umræðum sem þær vöktu í þætti Gísla Marteins. Dæturnar eiga að hafa farið um syngjandi og hrist gervilim spenntan í kvenlegt klofið í þvílíkri spennu að ein helsta og djarfasta leikkona landsins sem var líka í þættinum hljóp úr settinu og mun hafa gubbað í plastpoka frá Bónus, svo mikið var henni um lætin í dætrunum. Nú vita vitibornir að konur eru í eðli sínu tittlingaóðar en hafa fram að þessu leynt æði sínu innan feðraveldisins sem er með einokun á folanum. En femínisminn, sem er kominn að falli, hefur leyst höftin þannig að djörfustu meyjar og skólastúlkur veifa innrætinu við hvert tækifæri: tittlingaæðinu í ýmsum myndum. Ekki eru allir landsmenn á einu máli um gildi frelsisins en mikilhæf kona sem telur sig til prests fagnar og lofsyngur frelsun naflans, geirvörtunnar og druslunnar og ber auk þess umhyggju fyrir hommum, að þeir kunni að einangrast og hverfa inn á jaðarinn og aftur inn í siðsemisskápinn vegna innlimunar einhverra samtaka BDSM-ara í Samtökin 78. Um nýja flóttafólkið undan fordómum samfélagsins er sagt að það kunni ekki að greina á milli kynóra og kynlífs. Í tengslum við það er góð spurning: Ríða menn og konur eins og rófulausir hundar, alltaf í raunveruleikanum með kynfærunum einum og beitingu þeirra af alefli án orsakatengsla holds- og heilastarfsemi? Kannski er það hægt á Akureyri en var auðsæilega ekki þannig í Paradís með Adam og Evu í eplaleik. Hvað sem fínum trúar og  tilfinningum líður á himnum og jörð er víst að hefðu Reykjavíkurdætur viljað hafa sprengipúður í  sjónvarpsþættinum hefðu þær rekið gervitittlinginn rakleitt upp í hinn brosmilda munnvíða Gísla Martein og hrópaðu: „Tottaðu Gísli, tottaðu gandinn!“ og látið hann totta og kreist í lokin gervipunginn og sprautað upp í hann þáttanæringu sem hann þarf víst orðið á að halda. Þættir hans eru sagðir vera komnir með ellimörk, í þá komin viss blöðruhálseinkenni karlmennskunnar: Annað hvort komi úr kirtlinum ömurlegur dropi liðinna dáða drengsins eða skyndileg óstöðvandi kjaftavaðalsspræna ellibelgsins.

Guðbergur Bergsson

 

Pistill: Íslenska Þjóðleikhúsið 2016

Innsetningur í einum þætti

Spjöld á baksviði:

Ekkert að marka ríkisstjórnina.

Ekkert að marka lögreglustjórann.

Ekkert að marka forsetann.

Ekkert að marka Alþingi.

Bara að marka mig.

Á miðsviði eru myndir af þekktum andlitum á Alþingi með blöðrubörn í fanginu, sumir með afa og ömmu. Sumir eru með sjúklinga í sjúkrarúmum og hjólastólum.

Mikill raddkliður þingmanna við umræður. Stundum hefst upp úr honum: Við berum ábyrgð á framtíð, foreldrum, ömmum, öfum, alsheimersjúklingum og lömuðum.

Varpað á baktjald.

Myndir af flugmönnum með börn á brjósti í stjórnklefum og flugfreyjum með börn á brjósti við að selja samlokur og ilmvötn.

Myndir af sjómönnum á veiðum með pelabörn sín.

Raddir:

Allir jafnir og ábyrgir.

Bannað að reykja í laumi.

Aðeins leyft að ljúga ofan í plastpoka og líma síðan fyrir.

Blaðra með forsetanum. Hann þekja títuprjóna með myndum af íbúum landsins.

Rödd:

Ég er forseti þrjúhundruðogégveitekkihvemargralandsmannaogberjafnaábyrgðáöllum og þjáist með þeim.

Fremst á sviðnu er haldin tískusýning.

Hér eru ekki tískustúlkur heldur gamlir myndarlegir karlar og kerlingar í glæsilegum fötum eftir færustu íslensku hönnuðina.

Rödd:

BBC færir fréttir af íslenskri Byltingu hvað varðar tískusýningar. Þetta vekur heimsathygli. París grætur af öfund.

Mikill þytur heyrist. Rödd gellur:
Nú er nóg komið af frelsi og fíflagangi í samfélaginu. Ég er hinn eilífi guð án geðveiki.
Mikill hvellur heyrist.

Blöðrur springa. Þær hvissa og flaðra um og prumpa þegar loftið fer úr þeim. Sumar svífa til hima.

Guð segir:
Ísland. Fremst á flestum sviðum. Farðu vel í vitleysu þinni. Ég geri mína eigin píratabyltingu í paradís.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Við upphaf aldar

Við upphaf aldar

     Það hefur verið líkt og regla við upphaf nýrrar aldar í Evrópu frá því að nútíminn hófst, að hjá flestum þjóðum hefur ríkt óskiljanleg ólga. Missætti hefur einkennt stjórnmálin og fjármál og efnahagsmál hafa verið í ólestri, ef ekki handaskolum sérfróðra. Morð hafa verið tíð, hryðjuverk algeng, og á ótal sviðum hafa risið trúarvakningar. Til dæmis hvað varðar frelsi, siðfræði og kynjamál. Allir handhafar hreinsunareldsins hafa að sjálfsögðu rétt fyrir sér í boðskapnum. Evrópskur andi einkennst af því að efast ekki um gildi sitt og hann er gæddur þörf fyrir að hafa vit fyrir öðrum. Sá einkaréttur er sprottinn úr kristni eða öllu heldur botni Miðjarðarhafs. Þaðan er öfgatrúin upprunnin hvort sem hún er kennd við Krist, Jahve eða Múhameð. Trúarfíknin tengd anda þeirra hefur fundið hljómgrunn í því sem er hálfbrjálað í manninum og þjóðum þar af leiðandi. Þær eru mannanna verk. Einkenni þjóða eru ekki á allan hátt úr mannbætandi efni nema í hrokafullu tali. Það sem er þá álitið vera mannbætandi er notað sem skjöldur. Hann felur vopn ofstækis í höndum útvalinna. Oftast hafa þeir fengið leiðtogaandann í sig við eldhúsborð pabba og mömmu yfir kartöflunum, þá hvöt að standa með sjálfum sér í stjórn við að útdeila smælkinum til annarra. Þetta er lofsöngurinn að vera sjálfum sér trúr sem nær ekki til þjóðarinnar nema í orði kveðnu ef persónan með sjálfstrúna og frekjuna vill völd í kosningum. Þegar líður á nútímaöldina og komið að vissum „tímapunkti“ eins og tuggan hljómar, verður óreiðan þvílík hjá þjóðum að hún leiðir til uppreinsa, byltinga eða stríða í nafni föðurlands og móðurmoldar. Stríðin eiga að hindra niðurlægingu þessara sameinuðu kyntákna. Ísland og Evrópa eru núna á þessum „tímapunkti“. Trúlega á Evrópa engan Napóleon, engan Hitler upprisunnar, Mússolíni glæsileikans, Stalín eða Franco heimalningshátanna, svo ólíklegt er að farið verði í stríð af öðrum en hinum síréttlátu Ameríkönum og þá í öðrum heimshlutum en okkar. Að venju verða ráðamenn og eftirlíkingar þeirra hér bara með bjánalæti og tillögur sem höfða til fólks með miðlungs alþýðuþroska og þekkingu á manni og samfélagi. Það af leiðandi verða leiðandi skoðani ekki aðeins leiðinlegar heldur ófrumlegar í ætt við hringiðu síendurtekningar á borð við þá að aðeins konur verði þingmenn af því áður sátu ein-tómir karlar á þingi. Í tillögunni felst hliðstæðuáráttan í sinni andlega snauðu mynd sem leiðir til stöðnunar í látum sem við temjum okkur eða eru erfðir vegna almennrar fátæktar frá upphafi. Við uppgröft fornminja finnst varla annað en brýni og snældusnúður. Nú eru aðrir tímar en gullna fornöldin sem átti brýni og snældusnúð og í mesta lagi litla glerperlu. Þjóðin ætti að brýna sig á nýjan hátt við hlið þjóða og í samræði við þær. Margt finnst hjá manni og þjóð með öðrum. Að öðrum kosti verður endalaust sama brýni, snældusnúður og litla perlan í fari okkar, þótt útlend stórfyrirtæki rísi á hverju landshorni líkt og hliðstæður við bandarísku herstöðvarnar sem urðu til lítils gagns. Við ættum að tileinka okkur annað en undirgefni og endurtekningu hliðstæðna og forðast barnalegar spurningar: Eru konur betri en karlar? Eru karlar betri en konur?

Guðbergur Bergsson

Pistill: Piparjúnkan

Ávarp til íslensks þjóðaranda

Hefur sú sem var kölluð piparjunka, piparhunka, pipardunka, piparbunka eða piparmunka fengið uppreisn æru í samfélaginu?

Mátti hún ekki vera í friði fyrir fordómum?

Átti hún ekki líkama sinn?

Var rétt að giftir karlar og húsmæður rægðu hana í aldanna rás á heimili og á vinnustað?

Hefur ofsótti kynvillingurinn fengið höggmynd í vígðum samkynshneigðarreit í Hljómskálagarðinum eða í Öskjuhlíðinni?

Hefur „konan í Vesturbænum“ farið í Iðrunargöngu 2014 fyrst hún úthúðaði kynvillingum, fordæmdi piparjunkur, fussuðu á piparkarla og „þær sem hafa aldrei verið við karlmann kenndar“ og farið í ham yfir hlunkum „sem ekki er vitað til að hafi orðið ástfangnir“?

Verður þjóðin ekki að biðjast afsökunar á fordómum í garð þessa fólks, allir Íslendingar frá A til Ö?

Þurfið þið sem réðuð „móralnum“ í aldaraðir ekki að hreinsa sálina frá „toppi til táar“ og játa skoðanasyndir ykkar? 

Eða á allt að vera áfram hálfkarað og falsað í þessum efnum?

Er hér ekki verk að vinna, rétt að taka til höndunum og syngja síðan í kór Júróvisjónlagið góða?

„Lífið er of stutt fyrir skammsýni

úr vegi skal nú rutt allri þröngsýni

Og … Verum öll samtaka þið verðið að meðtaka.“ Eins og skáldið og þingmaðurinn Óttar Proppé, leiðtogi Bjartrar framtíðar, segir í því snjallasta siðbótaljóði sem ort hefur verið á Íslandi eftir dauða Hallgríms Péturssonar, enda hampaði Einar Guðfinnsson því til leiðsagnar þegar hann sleit síðast Alþingi.

Stillið saman strengi, hljómsveitir Íslands, rekið meyjar frjálsra ásta á tímum blóma og nakinna brjósta, sem vaða núna uppi líkt og mölétnar nunnur. Rekið þær með anda Bjartrar framtíðar til þess að vera „samtaka og meðtaka“ að þær verða að hreinsa til hjá sér opinskátt uppi á Arnarhóli og segja frá innræti sínu!

Lífið er of stutt fyrir skammsýni, segir skáldið og fögnum að ekkert varð úr hugmynd um að reisa skammarminnisvarða með „konu í Vesturbænum“ við að skera undan kynvillingi. Núna hefði hún þurft að snúa við hnífsblaðinu með hliðsjón af breyttu þjóðareðli og líma hann aftur á og leggja auk þess blessun samfélags og kirkju yfir besefann.

Guðbergur Bergsson

Hvað tekur við af hinni gamansömu grenjuskjóðu, Gnarr?

Ég er ekki sjálfstæðismaður. Ég fylgi Vinstri Grænum að málum. En í dag kaus ég utan kjörstaðar D-lista Sjálfstæðisflokksins af eftirfarandi ástæðum:

Stjórnálalega séð er óhollt að eina konan á lista Sjálfstæðisflokksins komist ekki að í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík á morgun.

Það er skylda hvers manns að vernda lýðræði og jafnrétti í vissum tilvikum, þótt hann sé ekki algerlega sammála einhverjum flokki.  

Það er ekki mitt flokksmál, heldur stjórnmálaleg skylda að reyna að halda uppi eðlilegu jafnvægi með atkvæði mínu.

Það yrði hörmulegt fyrir íslenska stjórnmálasögu ef Sjálfstæðisflokkurinn hætti að halda höfði. En hann ætti að gæta betur að innbúi höfuðsins.

Það hefur verið ágætt að hafa gamansama grenjuskjóðu fyrir borgarstjóra, en leiðilegt til lengdar að bíða daglega eftir því hvaða uppátæki muni hoppa upp úr sálarkompunni. Verður það hlátur eða grátur?  

Það „að breyta til“ eins og Íslendingar segja yrði mönnum léttir að fá fyrir borgarstjóra mann eins og Halldór sem „kemur utan af landi“ með mikla reynslu og er alger andstæða við skrípaskjóðuna.  

Borgarstjóri á ekki að vera skemmtikraftur.

Ég vona að „gömlu íhaldskerlingarnar innan Sjálfstæðisflokksins“ eins og þær voru kallaðar í eina tíð af vinstri körlum, verði duglegar við að „koma inn sinni konu“ og breyti líka því sem „á að vera gefið hvað varðar nýjan borgarstjóra“.

Það yrði bylting sem allir byltingarsinnar mundu fagna.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3