Gudbergsstofa 940x250 013

Stundum skapa íslensk yfirvöld stjórnmálaleg listaverk sem eru í eðli sínu snilld vegna þess að þau eru tákn sem fela í sér einfaldleika jafn einfaldan og sáran og harmleikur. Einn slíkur var haldinn á Þingvallapalli þar sem valdamenn landsins sátu saman á stólum andspænis fegurð náttúrunnar til að minnast hundrað ára sjálfstæðis. Aðrir, sem komust ekki á athöfnina, gátu horft á hana í sjónvarpinu og fengið  hugljómun. Næstum enginn alþýða mætti á Gleðigöngu sjálfstæðisins enda var þar enginn hommi að mera sig, eins og það hét þegar samkynhneigðir voru kallaðir kynvillingar og taldir vera hættulegir þjóðinni. Á skjánum núna sáust ráðamennirnir ganga í afar ruglingslegu ef ekki útúrborulegu liði milli hárra hamra hins helga staðar. Allt í einu snarstansaði liðið þegar fyrrum forsetafrú rauf gönguna með því að hlaupa flott í tauinu á háhæluðum skóm úr á kafagrasið og skakklappast að sitjandi konu á þúfu með nokkra hunda sem dingluðu skottinu vinalega við að sjá hefðargönguna. Athöfnin bar upp á dag íslenska fjárhundsins. Frúin gerði sér lítið fyrir, hrifsaði glaðlegan smalahund og rauk aftur að fylkingunni sem hélt strax af stað að pallinum undir leiðsögn seppa eins og fylkingin væri viss tegund af sauðfénaði. Þá hófust á pallinum svipaðar ræður og venjulega en þarna var enginn lestur ljóða eftir þjóðskáld og hvorki rokksöngur né rapp. Allt einkenndist af jarmi stjórnmála. Ekki bólaði á fjölbreytni þótt Ísland sé að vissu leyti til á tveimur stöðum öðrum en sínum eigin, landfræðilega séð. Annars vegar er það til á meðal Vestur-Íslendinga og hins vegar í Danmörku. Landið var á ýmsan hátt vagga menningar okkar undir danskri stjórn. Ekki sást fulltrúi fyrir Vestur-Íslendinga en aftur á móti Dana sem hefur valdið fjarafoki hjá þeim sem vita ekki, þrátt fyrir visku sína, að andstæðar hugmyndir auðga menn og þjóðir. Undir fjaðrafokinu hefur dulist gaggandi hænan sem heldur að ef fjaðrir hennar fjúka hátt fellur goggur og stélið ekki lágt. En á pallinum hefðu mátt auka tengslin á milli Íslands og ytri tauga þess í útlöndum. Við munum aldrei losna við fortíðina enda óhollt þjóðum að reyna að fela eða afskrifa hana með ópum. Í löndum samtímana er það stundum reynt. Hér með því að minnka dönskukennslu í skólum í staðinn fyrir að auka og grafa í sameiginlegar námur landanna. Með því hefði pallurinn borið ljóma inn í framtíðina en ekki bara verið eitthvað dæmigert íslenskt á lausum stólum andspænis dýrð og einsemd náttúrunnar.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3