Gudbergsstofa 940x250 013

Hin eilífa umstöflun

Þegar ég heyri í fréttum að sami maður hafi keypt enn á ný sömu fjölmiðla á borð við DV dettur mér í hug sá íslenski vandi að samfélagið endurtekur sig stöðugt í einkennum sem hægt væri að kalla eilífa umstöflun. Þannig stöflun var stunduð í lélegum ryðguðum bárujárnsskúrum í sjávarþorpum þegar flatfisur var helsta útflutningsvara þjóðarinnar og vandi ríkti á erlendum mörkuðum. Eina ráðið til að hindra að hann morknaði í stæðum var að láta verkafólk vera sífellt að umstafla sama fiski, hrista burt 2017 07 08 02.15.36 02 LRgulnað saltið og kasta aftur á sama hátt í stæðu. Eina breytingin gat verið sú að sá guli var gerður hornreka í skúrnum, færður úr einu horni í annað í von um bjargráð „að utan“ og markaðir opnuðust. Öll íslensk bjargráð berast að utan af því hin innlendu eru bölvað heilagums og kjaftæði. Engum fiskverkanda datt í hug að finna eitthvað nýtt. Þannig böðlaðist verkafólk við umstöflun bölvandi í sand og ösku forstjóranum en fann enga lausn fremur en hann, fegið að fá að minnsta kosti krónu fyrir umstöflun. Með þessu móti var alltaf sami fiskur í stæðunum og sama fólk bölvandi í sand og ösku en við það opnuðust ekki markaðir í Suður Evrópu. Aftur á móti morknaði einkum þunnildið á fiskinum og fólkið varð að sama skapi þunnt í heilanum. Á öllum sviðum samfélagsins ríkir ennþá svipað. En ryðgaðir kofar og verkafólk eru úr sögunni, í staðinn komu stórhýsi og háskólafólk. En alltaf sama umstöflun, þó með vissum tilfærslum. Þetta á einkum við um sístöflun á menntafólki með fremur morkin þunnildi. Til dæmis innan fjölmiðla. Þar er sífellt verið að færa til og frá sama fólkið sem brýtur ekki upp á neinu nema fíflalátum sem það telur vera fyndni. Þótt samfélagið sé fámennt getur maður ekki fylgst með allri umstöflun og tilfærslum en hið gamalgróna blasir við í svonefndum kynjahlutföllum. Sem einkennast af því að konum er núna staflað og umstaflað hvarvetna. Þær eru tilfærðar en gera hvorki meira né minna gagn en karlar í sömu stöflun og tilfærslum sem sannar að hugvitið á ekki heima í kynfærunum. Með þessu móti blómgast meðalmennska og smæð. Hindranir af þessum toga gætu með tímanum valdið sjálfsmorðum, ekki bara hvað varðar unga menn og tunguna heldur fjölmiðla og bókmenntir. Ein ástæðan fyrir salthúserfðum okkar kringum flatfiskinn er léleg menntun og kennsla. Í henni er konum staflað og umstaflað látlaust við kennarapúltin svo megna lyktin angar úr skólastofunum, ekki sú gamla af golþorskinum heldur hin nýja af ýsunni. Þótt ungt fólk komi með próf frá útlöndum færir það ekkert boðlegt og finnur varla fyrir hættulegri umstöflun og tilfærslum. Það horfir bara á sjónvarpið og brýtur heilann um hvort Jón og Gunna verði nú færð á næstunni í nýja þáttaröð eða í aðra fjölmiðla og njóti áfram frelsis til að bera á borð hæfileg þunnildi. Í stuttu máli er hin eilífa íslenska umstöflun þannig.   

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3