Gudbergsstofa 940x250 013

Ég er orðinn heilsársjólaköttur og segi sem slíkur:

Ég er yfirleitt sammála Kolbúnu Bergþórsdóttur í skrifum hennar í DV. Ég er hrifinn af öllu frá henni, meðal annars því sem hún segir með flissi þegar hún er umsagnardómari á sviði bókmennta í sjónvarpsþættinum Kiljunni. Hann er að mínu jólakattarviti fyrir löngu kominn úr kilinum en klístrað saman með kekkjóttu hveitilími og hangir varla á límingunum.

Ég tala ekki um hvað Kolbrún er betri í DV en Bjarni Benediktsson frá Hofteigi var á sínum tíma í Þjóðviljanum. Hann var bókmenntaslátrari. Aldrei hef ég verið meira sammála skoðunum hennar en í nýlegri grein þar sem hún fer ekki bara á venjulegum kostum heldur einnig listrænum og mannúðlegum í þokkabót. Í greininni stígur hún lengra fram fyrir skjöldu sem verjandi 20170527 01göfugra lista en nokkur hefur gert. Hún segir orðrétt um málverk og listir, einkum verk hollenska málarans Rembrandts í tengslum við breska kvikmynd um hann (hún hefur auðvitað séð hana á netinu; hún virðist liggja öll kvöld í sjónvarpstölvunni):

“Snilldarleg listaverk ættu ekki að fara úr tísku en samt henti það að ekki varð lengur eftirspurn eftir verkum listamannsins. (Hér er átt við Rembrandt.) Þau þóttu of gróf og ljótleiki sömuleiðis of fyrirferðarmikill. Okkur voru sýnd málverk sem þóttu betri en verk Rembrandts og það var vandræðalegt að sjá þær líflausu glansmyndir. Furðulegt hvað samtímamenn geta misreiknað sig illilega í mati í list.

Rembrandt lifði það að verða gjaldþrota, sárafátækur og aleinn. Hann átti svo miklu betra skilið.”

Við að lesa greinina varð ég djúpt snortinn, samúðarvænn, harmi sleginn og reiður, fullur af réttlætiskennd og hugsaði að margir forkólfar í listageiranum hér á landi mættu læra af Kolbrúnu og hefja átak um skilning á list en skora á hólm vernduðu lágmenninguna á föndurstigi í blóðkreppusótt þjóðlífs sem einkennist af þjónkun við það sem á engan skilning skilinn sökum frekju sinnar og tengsla við valdið í listapólitíkinni. Fólk er sent í tröllríðandi bjánaskap á bíennala, með krakkaföndur sitt, og í söngvakeppnir og síðan snýr það heim eins og sérstök tegund af íslenskum fílum sem veifa rananum ímynduðum af því að óskhyggja trjónunnar endaði í fúlum pytti í Feneyjum og Kænugarði.

Kolbrún birtir grein sinni til stuðnings mynd af málverki eftir Rembrandt og kallar: Lucretia Um það bil að deyja. Dáin er Lucretia en lengi lifi Kolbrún. Hún á heiður skilinn fyrir afturvirkandi samúð með málara sem dó árið 1669. Samúð er viss siðferðiskennd, ekki verður því neitað, en afturvirkandi samúð er til lítils, ef ekki tóm hræsni, nema hún veki framtíð og samtíð til umhugsunar um sínar líflausu glansmyndir og tímaskekkjur.

Guðbergur Bergsson

 

 

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3