Gudbergsstofa 940x250 013

Við upphaf aldar

     Það hefur verið líkt og regla við upphaf nýrrar aldar í Evrópu frá því að nútíminn hófst, að hjá flestum þjóðum hefur ríkt óskiljanleg ólga. Missætti hefur einkennt stjórnmálin og fjármál og efnahagsmál hafa verið í ólestri, ef ekki handaskolum sérfróðra. Morð hafa verið tíð, hryðjuverk algeng, og á ótal sviðum hafa risið trúarvakningar. Til dæmis hvað varðar frelsi, siðfræði og kynjamál. Allir handhafar hreinsunareldsins hafa að sjálfsögðu rétt fyrir sér í boðskapnum. Evrópskur andi einkennst af því að efast ekki um gildi sitt og hann er gæddur þörf fyrir að hafa vit fyrir öðrum. Sá einkaréttur er sprottinn úr kristni eða öllu heldur botni Miðjarðarhafs. Þaðan er öfgatrúin upprunnin hvort sem hún er kennd við Krist, Jahve eða Múhameð. Trúarfíknin tengd anda þeirra hefur fundið hljómgrunn í því sem er hálfbrjálað í manninum og þjóðum þar af leiðandi. Þær eru mannanna verk. Einkenni þjóða eru ekki á allan hátt úr mannbætandi efni nema í hrokafullu tali. Það sem er þá álitið vera mannbætandi er notað sem skjöldur. Hann felur vopn ofstækis í höndum útvalinna. Oftast hafa þeir fengið leiðtogaandann í sig við eldhúsborð pabba og mömmu yfir kartöflunum, þá hvöt að standa með sjálfum sér í stjórn við að útdeila smælkinum til annarra. Þetta er lofsöngurinn að vera sjálfum sér trúr sem nær ekki til þjóðarinnar nema í orði kveðnu ef persónan með sjálfstrúna og frekjuna vill völd í kosningum. Þegar líður á nútímaöldina og komið að vissum „tímapunkti“ eins og tuggan hljómar, verður óreiðan þvílík hjá þjóðum að hún leiðir til uppreinsa, byltinga eða stríða í nafni föðurlands og móðurmoldar. Stríðin eiga að hindra niðurlægingu þessara sameinuðu kyntákna. Ísland og Evrópa eru núna á þessum „tímapunkti“. Trúlega á Evrópa engan Napóleon, engan Hitler upprisunnar, Mússolíni glæsileikans, Stalín eða Franco heimalningshátanna, svo ólíklegt er að farið verði í stríð af öðrum en hinum síréttlátu Ameríkönum og þá í öðrum heimshlutum en okkar. Að venju verða ráðamenn og eftirlíkingar þeirra hér bara með bjánalæti og tillögur sem höfða til fólks með miðlungs alþýðuþroska og þekkingu á manni og samfélagi. Það af leiðandi verða leiðandi skoðani ekki aðeins leiðinlegar heldur ófrumlegar í ætt við hringiðu síendurtekningar á borð við þá að aðeins konur verði þingmenn af því áður sátu ein-tómir karlar á þingi. Í tillögunni felst hliðstæðuáráttan í sinni andlega snauðu mynd sem leiðir til stöðnunar í látum sem við temjum okkur eða eru erfðir vegna almennrar fátæktar frá upphafi. Við uppgröft fornminja finnst varla annað en brýni og snældusnúður. Nú eru aðrir tímar en gullna fornöldin sem átti brýni og snældusnúð og í mesta lagi litla glerperlu. Þjóðin ætti að brýna sig á nýjan hátt við hlið þjóða og í samræði við þær. Margt finnst hjá manni og þjóð með öðrum. Að öðrum kosti verður endalaust sama brýni, snældusnúður og litla perlan í fari okkar, þótt útlend stórfyrirtæki rísi á hverju landshorni líkt og hliðstæður við bandarísku herstöðvarnar sem urðu til lítils gagns. Við ættum að tileinka okkur annað en undirgefni og endurtekningu hliðstæðna og forðast barnalegar spurningar: Eru konur betri en karlar? Eru karlar betri en konur?

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3