Gudbergsstofa 940x250 013

Það hefur aldrei ríkt þjóðernishyggja og útlendingahatur á Íslandi heldur einangrun og fáfræði. Við erum ófærir um að móta stefnu í anda útlendingahaturs og þjóðernis. Allt sem svipar til þjóðerniskenndar er átthagatengt mont fremur en skipulögð hugsun um yfirburði íslenska kynstofnsins. Það lengsta sem við höfum komist í hroka er að halda að við séum komin af Noregskonungum sem hefur yfir sér blæ barnaskapar og tilfinningasemi.

   Þeir sem eru ennþá gæddir minni og fæddust fyrir tíma seinni heimsstyrjaldarinnar muna eftir þessum barnaskap sem lýsti sér einkum í sveitahroka. Auk þess taldi fólk úr sveitum eða sýslum að það væri gætt ofurgáfum og yfirburðum vegna þess að það fæddist í vissum dal eða landshluta. Mest bar á þessu hjá Þingeyingum, Skagfirðingar höfðu líka talsverða yfirburði yfir aðra, Dalamenn í minna mæli, Borgfirðingar fylgdu fast á eftir, en Skaftfellingar létu nægja að vera drjúgir með sig og draga seiminn.

   Mestu vitleysingar Íslands voru af Suðurnesjum með kvarnir þorsks í stað heila, Snæfellingar komu þar á eftir. Börn frá þessum bjánastöðum fundu glöggt flokkun einkenna mannvits og fábjánaháttar ef þau voru send í sveit til að vinna fyrir sér og „mannast“ hjá bændum. Sá andlegi munaður að njóta þess „að mannast í sveit“ gat verið fróðlegur, barnið styrktist við það að kynnast rammíslensku eðli, eins og það var kallað. Krakkar sem komu heim úr sveit voru reynslunni ríkari. Þau höfðu lært að vorkenna ekki sjálfum sér heldur uxu þau andlega á þann hátt sem mótlætið getur kennt sálinni. Fyrir bragðið urðu þau síðar á ævinni ólík vælukjóakynslóðinni núna sem er afturendinn á framhlið íslenskrar sveitamenningar sem andar jafn fúlum vindi að framan og aftan.

   Í fari Íslendinga hefur ekki verið útlendingahatur heldur fælni í þeirra garð. Ástæðan fyrir þessu er sú að landsmenn hafa aldrei fórna lífi sínu fyrir ættjörðina, aldrei þurft að berjast við nágrannaþjóðir og hata þær. Líklega erum við ekki einu sinni þjóð í venjulegum skilningi heldur eyjaskeggjar og íslenskir karlmenn eru þar af leiðandi ekki karlmenn í evrópskum skilningi og konur ekki heldur konur heldur kvenfólk. Öll erum við leiðitöm hjú vegna sögu okkar og þjóðfélagshátta.  

   Maður með sæmilegt minni sem á rætur að rekja til íslenskra aðstæðna „fyrir stríð“, eins og sagt er, getur nefnt dæmi úr forðabúri íslenskrar „fjandsemi“, en íslensk fjandsemi er fráleitt hatur. Fyrir seina stríð bar hvergi á samstöðu með ofsóttum, flóttafólki og meðbræðrum nema hjá sósíalistum og alþýðuflokksfólki; yfirleitt var íhaldsfólk laust við andúð nema á kommúnistum. Það sama var ekki hægt að segja um framsóknarmenn. Í fari þeirra var samt fremur tilfinning fyrir eigin yfirburðum en andúð eða hatur á „allra þjóða kvikindum“. Allir, háir og lágir, notuðu reyndar þetta orðalag en helst þeir sem voru farmenn og höfðu „siglt um öll heimsins höf“. Að hafa verið innan um „kvikindin“ brá hetjuljóma yfir sjómenn. Svipaður ljómi var yfir bónda sem hýsti útlending sem hafði komið til þess að vinna og læra íslensku. Talið var að hvergi væri hægt að læra „málið“ nema í sveit, helst í afdal með „skrýtnum körlum og kerlingum“. Enn hafa menn dálæti á þannig útigangsfólki og bera virðingu fyrir því en ekki útigangsfólki samtímans; það er drullupakk.

   Sem sönnun fyrir því að Íslendingar hafi aldrei verið útlendingahatarar þegar á hólminn er komið er hernámsdæmið. Í því voru menn samt beggja blands, eins og þessi saga ber með sér:

   Einu sinni á þeim þeim löngu liðnu árum þegar „allir voru að rífast um stjórnmál“ var ég staddur á gangi í sjúkrahúsi. Tveir karlar stóðu þar og voru auðvitað að þjarka. Allt í einu fóru þeir í hár saman yfir negrum og auðheyrt að annar var kommúnisti en hinn íhaldskarl. Mennirnir voru það sem hægt væri að kalla fjandvini með gagnkvæman áhuga og aðdáun á einstrengingslegum skoðunum. Í deilunni fann komminn „blökkumönnum“ allt til ágætis og kvað þá vera kúgaða af hvítum, einkum auðvaldinu í Ameríku, en hinn taldi þeim allt til foráttu fyrir leti og sóðaskap, svo af þeim stafaði negrafýla. Komminn skellti þeirri skuld á ræningjana í Wall Street sem stælu jafnvel af þeim sápunni. Þannig þrefuðu þeir þangað til að íhaldskarlinn fann ráð til að athuga hvort komminn væri jafn mikill negravinur og hann vildi vera láta og spurði:

   Vildi þú að dóttir þín giftist negra og þú yrði afi kynblendingskrakka?         

   Komminn brást ókvæða við og sagði:

   Ég mundi aldrei gifta dóttur mína niggara".

   Þegar blökkumaðurinn var orðinn niggari urðu andstæðingarnir á sama róli og ræddu mærðarlega um „misjafna sauði í mörgu fé“ og ekki hafi allt verið upp á sitt besta hjá ameríska úrvaldsliðið sem átti að verja okkur gegn Hitler. Því til sönnunar fór kommúnistinn með söngtexta úr revíunni Halló Ameríka:

     Áður þurfti bóndinn að borga fyrir kúna

     ef bola þurfti að sækja en nú er þessu breytt,

     hér er komið úrvalslið frá Ameríku núna

     sem óðar býðst að gera þetta fyrir ekki neitt.

      En ef að þetta úrvalslið iðkar kálfasmíði

      hverju haldið þið að úrhrakið í Ameríku ríði?

Nú hljóp í karlana rótgróin ást á ljóðagerð. Þeim fannst stuðlasetning og rímið vera frábært og brutu heilann um hvort ljóðið væri ort af Alþingismanni, margir þeirra væru skáldmæltir og sönghneigðir en hefðu í þessu tilviki ort undir dulnefni við samningu revíunnar. Þeir glöddust yfir kvikindishætti bæði í garð útlendinga og sveitadurga og töldu að hagur bóndans hefði batnað við að þurfa ekki á tudda að halda, en samt hefði mjólkurlítinn ekki lækkað.

   Meðan þessu fór fram höfðu konur hópast á ganginum og skoðuðu frottésloppa hver annarrar en við að heyra ánægju karlanna yfir klúru vísunni skárust þær í leikinn og sögðust hrífast meir af ljóði eftir konu sem fór fínt í sakirnar og orti „mitt er þitt og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina“. Þetta sló karlana út af laginu, þeir hörfuðu inn á stofuna sína en konurnar fóru að brjóta heilann um hver ástæðan væri fyrir því að margir fengju þvagfærasýkingu á Blönduósi en allir losnuðu við hana á Sauðárkróki. Þær sættust á að eitthvað væri athugavert við vatnið í Blöndu.   

   Í seinna stríðinu voru framsóknarmenn, og reyndar fleiri, heitir fyrst út í breska herinn en síðan þann ameríska af því að lauslátu kvensurnar á heimskusvæðunum fór fremur í ástandið en í kaupavinnu. Margir sem sendir voru í sveit á þessum árum „til þess að mannast“  urðu vitni að heift bænda sem hörmuðu liðna tíð þegar húsbóndinn las upp úr Kapítólu á kvöldin fyrir vinnufólkið sem kepptist á meðan við að spinna og þæfa eða stoppa í sokkaplögg. Á bestu árum bændamenningarinnar var enginn á bæ svo frjáls að hann ætti sína bók nema bóndinn sem las. Sá siður þekktist þá ekki á meginlandi Evrópu, en maður var látinn lesa heppilegar bækur fyrir Marie Antoinette sem var samt hálshöggvin í byltingunni í Frakklandi árið 1789. Hún fékk aldrei að lesa sjálf. Það andlega ofbeldið að útvalinn maður læsi bók fyrir alla tíðkaðist síðast í Versölum sólkonungsins, en í íslenskum sveitum var þetta við lýði fram á tuttugustu öldina og lofsungið sem „bændamenning“.

    Hatrið á hernámsliðinu hvarf um leið og stjórnmálamenn og aðrir fundu að hægt væri að græða á því. Eins og oft vill verða voru tvær hliðar á sama máli: hægt var að græða á hernum en missa um leið bestu konur í bransann. Þá fékk „kúfótur“, eins og ég man að framsóknarhetjan var kölluð, líklega flokkskonu sína til að halda skrá yfir „kanamellurnar“. Hvort það tókst að reka margar kanamellur í mannbætandi kaupavinnu hefur líklega ekki verið rannsakað af femínistum. En hvað sem því líður náði forræðishyggjan til hvatalífsins. Þá gerðist það sem oft vill verða, að samtímis siðferðisátaki verður hið gagnstæða, trúmennskan hverfur og í staðinn kemur siðferðisleti: bændur flykktust úr sveitum til Keflavíkur í Kanann eða til Reykjavíkur og hafa að miklu leyti haldið þar sínum venjum að líta á „kvenpeninginn“ sem kaupakonur eða sjálfsögð „stykki til að stinga í“. Það þótti sjálfsagt.

   Svona var lífið áður á Íslandi, ekki síst í sveitum með sínar ómetanlegu náttúruperlur sem eru núna ekki bara augnayndi heldur tekjulind vegna ásóknar erlendra ferðamanna og allra þjóða kvikinda. Innlendir, áður dalabændur, hafa komist að því að það er jafn gott að græða á erlendum ferðamönnum og áður á ameríska hernum á Vellinum. Slíkt þykir sjálfsagt þótt gróðanum fylgi níðsla á fósturmoldinni; í þessu tilviki er það ókey og hið besta mál að kasta náttúruperlum sveitanna fyrir svín.

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3