Gudbergsstofa 940x250 013

Hreinsunaræðið

Eftir hrunið og „sukkið“ hefur hreinsunaræði gripið um sig, ekki bara hér heldur um heim allan. Réttlætiskennd og krafan um heiðarleika eru orðnar svo algerar hjá stjórnvöldum að hreinsanir Stalíns hverfa í skuggann hvað umfang varðar en eru ekki jafn mannskæðar. Hreinlætisæðinu fylgir mikill kostur: hreinsanir skulu vera gagnsæjar, glasnostaðar, þannig að „hugmyndafræðin“ á báðum sviðum er sótt til Rússlands fyrr og nú. Meðan á þessu stendur eru allir hræðilega varir um sig og vita ekki nema þeir fái „bréf frá huliðsheimum valdsins“ um að þeir hafi ýmislegt óhreint í pokahorninu og verði „kallaðir fyrir“.

   Hver er saklaus ef verðir laganna með hreinlæti „á oddinum“ sækja að okkur á öllum sviðum? Er alger heiðarleiki til hér á jörð? Varla. Kannski ekki nema hjá barni sem kemur nakið í heiminn og hefur ekki eignast neitt í lífinu nema hana mömmu sína. Svo fara menn að sjálfsögðu heiðarlega naktir til fundar við eiganda sinn á himnum.

   Gætið að því valdhafar, að ofhreinsanir geta leitt til glötunar sem sannaðist á Sovétinu og Bandaríkin hafa verið að hreinsa heiminn í áraraðir, en nú er svo komið fyrir þeim að þau hafa hreinsað sjálfum sér og heiminum til óbóta og fengið algerlega á sig drulluna. Ef þannig er komið fyrir þjóðum, stórum og smáum, þá tekur við það vandaverk að hreinsa af sér fyrrum hreinsanirnar sem er enginn hægðarleikur í stjórnmálum: skíturinn vex yfirleitt við skrapið í botn.

   Æðið hefur gengið svo langt í hringavitleysunni að Angela Merkel kanslari - ættuð úr Austur Þýskalandi þar sem Stasi ríkti með hreinsanir sem hún fordæmdi og flaug þannig í embættið - telur núna að njósna sé þörf til að verja ríkið gegn óvinum þess. Svo hvað á maður að halda, ef hreinsanir leiða til óþrifa og ósigra gegn drullunni og gagnsæi, glasnost, leiðir í ljós að lygin þrífst á sannleikanum og sannleikurinn nærist á lygi uns nýr lygasannleikur hefur göngu sína? 

   Að svo komnu máli er má spyrja saklausrar spurningar í tengslum við skólpið á Íslandi:

   Fór ekkert óhreint í tæru fljótin, sá enginn drullið fyrr en dólgarnir í Evrópusambandinu fóru að skipta sér af hreinlætinu á eyjunni jöklahvítu?

   Má ekki skólp frá heiðarlegu vinnandi fólki fara í vötn, sjóinn og fljótin? Lifðu laxar ekki sælu lífi á súru leysingum úr Guðna Ágústssyni sem á að hafa búið í glæsihúsi við bakka Ölfusár og sturtað hreinlega niður úr klósettinu, frjáls maður í frjálsu landi án erlendra boða og banna?

   Vissulega!

   En munnmæli herma að eftir að alþingismaðurinn seldi bústaðinn og það „hljóðnaði í pípunum“ hafi laxarnir í ánni mjólkurhvítu rýrnað undir roði og orðið lausir við hrygginn.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3