Gudbergsstofa 940x250 013

Detroit fer á hausinn

Detroit, helsta stolt á uppgangstímum Bandaríkjadýrkunarinnar í heiminum með bílana í fararbroddi, er farin á hausinn. Ekkert virðist geta komið fallna guðinum til bjargar annað en málverk eftir fyrrum vesalinga á borð við Caravaggio, sem var ribbaldi, og van Gogh „sem seldi aldrei neitt“. Hann endaði ævina úti á akri með málaratrönurnar. Strákar skutu þar vitleysinginn að gamni sínu. Það var „ekkert mál“ fyrir en einni öld eftir atburðinn að sannleikurinn kom í ljós. Málarinn var talinn einskis nýtur á andlega sviðinu hvað þá á hinum veraldlega fjármálamarkaði.

   En hvaðan eru dýrmætu málverkin í listasafninu í Detroit komin eftir Caravaggio, Rembrandt og van Gogh, verk sem eru metin á 2,5 miljarða dollara og eiga að bjarga næstum heilli borg og hefja hana upp úr svaði og rúst bandarísks samtíma?

   Þau eru líklega frá auðmönnum, „glæpamönnunum í Wall Street“ sem okkur var tíðrætt um í sannleiksást sósíalismans úr háborg réttlætisins í Keml. „Glæpamennirnir í Wall Street“, sem Einari Olgeirssyni var svo tíðrætt um á Alþingi, hafa verið af meiri „stærðargráðu“ en hinn nú fyrirlitni Björgólfur Guðmundsson „Landsbankaglæpon“. Hann var samt svo stórtækur í anda og athöfnum (þótt lítilsigldur væri að margra mati) og mikill „á okkar mælikvarða“ að hann reisti undirstöðu Hörpu með „glópsku“ sinni. Hver annar hérlendur auðmaður eða kona hefði staðið að smíði húss á borð við Hörpu? Hún átti að vera óperuhús en ekki hæli fyrir bílskúrahljómsveitir. Í stuttri tímans rás sögu sinnar minnir hún orðið á heimilislega ruslakompu sem er full af skúringatuskum og skrúbbum undir mjóum menningarstiga. Þarna virðist vera hægt að sameina allskonar drasl og dót undir stjórn og í anda sjálfumglaðrar heimavinnandi húsmóður sem veifar svuntunni í fjölmiðlum. Eflaust hefðu engir nema Björgólfur Guðmundsson og Katrín Jakobsdóttir getað reist Hörpu á háum hugsjónum andstæðra stjórnmálaskoðana. Minni karlar og konur hefðu í mesta lagi smíðað með sínum smáíbúðahverfisanda lítið Mömmuhús við höfnina með útsýni til Esjunnar fyrir krakkagemlinga til að góna á meðan þeir gæða sér á nammi milli frekjukasta.

   Það er víst engin spurning að svikulir peningamenn í bílaiðnaði, en ekki heiðarlegir og hreinlyndir prestar með réttlætiskennd í bandarískum kirkjum, hafa keypt málverkin á uppgangstímunum í Detroit og gefið borginni sinni, einmitt þegar hinir rassprúðu bílar, drekar og drossíur með þúsund ljósum og krómuðu skrauti að framan og aftan brunuðu um malarvegi á Íslandi og jusu undan sér möl á beljur og rollur við vegakant í sveitum og báru þannig Bandaríkjunum vitni. Drekarnir breiddu ákaft út kanadýrðina þannig að enginn heilvita maður á Fróni varð „kjaftstopp“ í lofsöng sínum um hana.

    Við þetta er því að bæta, háværu fólki til íhugunar, að til þess að skapa auðlegð, hvort sem hún er efnisleg eða andleg, þurfa að vera hæfileikar á sem flestum sviðum og það er eðli hæfileika að skapa auðlegð. Ef hátt skal reisa hallir og þjóðfélög nægir ekki að hafa „réttlætiskennd“ sem hefur þann eina tilgang í tilveru sinni að sækja gjammandi og heimtufrek í garð auðsins sem hún er ófær um að skapa sjálf í Detroit dusilmenna samtímans.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3