Gudbergsstofa 940x250 013

Árásir á skóla

Í fréttum í dag er dæmi um siðleysi tengt skólastúlkunni sem varð fyrir árás í heimalandi sínu. Þar segir: „Samkvæmt ársskýrslu Sameinuðu-Þjóðanna var á fyrra ári ráðist á 115 skóla í Malí, 321 skóla á herteknum svæðum Palestínumanna, 167 í Afganistan og 165 í Yemen. Þá var iðulega ráðist á skóla í Pakistan heimalandi baráttukonunnar ungu Malölu Yousafzai.“

   Siðleysið felst í því að bara eru taldar árásir á skóla í löndum utan „vestrænnar siðmenningar“ helst í löndum múslima og að þetta skuli koma frá Sameinuðu-Þjóðunum. 

    Í öllum löndum eru gerðar árásir á skóla. Hérna felast þær í því að rúður eru brotnar, tölvum stolið og allt rifið. Í Bandaríkjunum, auk annarra brota, er skotið á nemendur og kennara. En hvorki Íslands né Bandaríkjanna er getið í skýrslu Sameinuðu-Þjóðanna. Þetta er kannski ekki vísvitandi fölsun heldur „mannleg mistök“ en þau gætu ýtt undir fordóma í garð trúarbragða og landa þar sem andstaða er einkum gegn menntun stúlkna. Hún var áður hér og á vesturlöndum, líka stráka og jafnvel skólagöngu. Strákar áttu að vera á sjónum eða við sveitabúskap og í sjávarþorpum var algengt að drífa krakkana kauplaust úr skóla í fiskinn „til þess að bjarga aflaverðmætunum“ fyrir þjóðina. Að öðrum kosti færi „útgerðin á hausinn“.

   Munurinn á árásum á skóla “hérna og þarna“ er sá, að þeir sem brjóta, bramla, stela og drepa hér á vesturlöndum hafa allir notið lærdóms, samt ráðast þeir á skóla og kennara sína, en í hinum eru þeir væntanlega „ómenntaðir arabar“.

   Vert er að gleypa ekki algerlega gagnrýnislaust við fréttum þótt frá Sameinuðu-Þjóðunum og BBC komi.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3