Gudbergsstofa 940x250 013

Kæru landar

Mikið verður rætt á næstunni af stjórnmálafræðingum og andlegum ættingjum þeirra, sagnfræðingum og blaðamönnum, um síðustu „ákvörðunartöku“ Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Þá mun „sitt sýnast hverjum“ eins og í umræðum hárra og lágra hér á landi. En meinlausar og beinlausar verða niðurstöðurnar, enda rétt að fara með gát í öðru en að gapa stórt. Ástæðan er sú að menn fylgja foringja skilyrðislaust að ákvörðunartöku lokinni, þegar hann segir mjölkisulega „að mestu máli skipti að víðtæk sátt náist með þjóðinni“. Orðalagið er þannig ef um karl er að ræða en kona mjálmar: „Nú skiptir mestu máli að stilla saman strengi.“ Þetta er munurinn á orðalagi karla og kvenna í valdastöðu hérna megin grafar á Íslandi. Með slíku „snilldarbragði í málnotkun“ leiðtoga í lýðræðisríki er hann laus allra mála. Hann þvær hendur sínar og vísar „framhaldinu til visku þjóðarinnar“ sem hann trúir á og er ekki að krossfesta hana heldur bjóða henni að vera sinn eigin frelsari. En þjóðin lufsast áfram með enga lausn „í farteskinu“. Um hvað er hún þá að kjafta? Hún rausar bara í rigningunni eða safnast saman í mesta lagi á undirskriftalista sem „nægja til þjóðaratkvæðagreiðslu“ eða til einskis nema haninn á Bessastöðum þurfi að gala og vagga stéli við að kroppa í sig fyrir framan kjúklingana eða eins og segir í Íslendingasögu sem samtími okkar ætti að skilja: „Það var siður konungs að eta einmælt. Var fyrst borin vist fyrir hann, sem von var, og var hann þá jafnan mjög mettur þegar vistin kom fyrir aðra. En þá er hann var mettur, klappaði hann með hnífskafti sínu á borðið og skyldi þegar ryðja borðin og voru margir þá hvergi nærri mettir.“ Þannig var um konunginn og liðið hans, en það náðist jafnan víðtæk sátt þegar gengið var saman um götur. Svo mun líka verða eftir að leiðtogi okkar leysti málið sem kom upp á borðið til hans varðandi „matarkistu okkar allra í sjónum“. Hann gerði það af stjórnvisku sinni, að eta einmælt. Mörgum finnst þó ráð hans yfirleitt vera vindhanaleg, öðrum að hann sé jafnan í „mótsögn við sjálfan sig“ en fleirum að eðlilega fari saman snúningur vindhana og mótsagnir í rokarassgatinu hér. En skyldi horgrindin hvað varðar hagsmunamál heimilanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fitna núna á fordæmi Ólafs Ragnars Grímssonar eða verða örlög hans þau sömu og Jóhönnu Sigurðardóttur sem lofaði að „slá skjaldborg um heimilin í landinu“ en féll úr stjórnmálum eins og valkyrja með blóðnasir?

   Svari nú hver frjáls maður fyrir sjálfa(n) sig þótt svarið verði til einskis.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3