Gudbergsstofa 940x250 013

Evrópsk vesæld og undirgefni

Það var engin tilviljun að Evo Morales, forseti Bólivíu, var kyrrsettur á flugvelli í Vínarborg á heimleið frá þinghaldi með öðrum leiðtogum í Moskvu. Ef marka má fréttir frá heimalandi hans kröfðust Bandaríkin þess að hann skilaði þeim Snowden, sem kom upp um njósnir þeirra. Það er ekkert nýtt að bandarísk stjórnvöld gefi sér ýmislegt eftir sinni hentisemi. Að sjálfsögðu komu þau í þessu máli ekki beint að atburðinum heldur beittu fyrir sig hálfnýlendunum í Evrópu og létu þær banna flug forsetans yfir löndum sínum. Krafan er sérstæð og hlýðnin furðuleg, vegna þess að Snowden hefur sannað fyrir skömmu að Bandaríkin njósna um allt í löndum Evrópusambandsins. Yfirgangurinn og undirgefnin eru samt á vissan hátt eðlileg í sögulegu samhengi: frá síðustu heimsstyrjöld, en einkum í kalda stríðinu og í samtímanum, hafa þjóðir Evrópu lokað augunum fyrir því að bandarískar herflugvélar fljúga, leynt og ljóst, um lofthelgi þeirra með gereyðingarvopn og réttlausa fanga til geymslu án dóms og laga á öruggum stöðum víða um heim. En fram að þessu hafa bandarísk stjórnvöld ekki heimtað að forseti lýðveldis verði kyrrsettur og leitað í flugvél hans að manni sem þau ákveða af eigin geðþótta að leynist þar. Kannski er ekki furða að Spánn hafi orðið við kallinu, Bólivía var spænsk nýlenda og síðan undir bandarísku eftirliti sem studdi þar einræðisherrana. CIA drap Che Guevara í Bólivíu, reyndar með sovétaðstoð. Leynilögreglan hefði ekki fundið hann án Taníu, fölsku skæruliðakonunnar sem var send til þess úr einu af hinum svonefndu Alþýðulýðveldum. Andi gömlu nýlenduveldanna og samtímans er ekki úr sögunni. Bandaríkin eiga bágt með að sætta sig við þá staðreynd að löndin í Suður Ameríku eru að mestu laus úr böndum auðhringa þeirra. Og ekki er langt síðan að konungur Spánar sagði þjóðhöfðingja Venesúela, Hugo Chavez, að halda kjafti og þegja eins og landið væri ennþá spænsk nýlenda í eigu hans. Annað skiptir einnig og meira máli hvað Morales varðar: Obama vildi koma þegnum sínum á óvart og hressa andlegt ástand þeirra með pólitísku kraftaverki, handsama Snowden í flugvél Morales og veifa dólgnum og föðurlandssvikaranum sem sigurtákni heimslögreglunnar á þjóðhátíðardaginn. Hann er í dag, 4. júlí. Kænska kanaleiðtogans brást og það er óhætt að segja að lokum í þessari grein, að fátt er ömurlegra en heimsveldi að falli komið en heldur samt að það standi teinrétt, stutt af evrópskri nútímavesæld og undirgefni.

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3