Gudbergsstofa 940x250 013

Eygló á Alþingi

Það verður ekki annað sagt um stjórnmálamenn en það að þeir eru mannlegir á sérstakan hátt, þann sem varðar þá sjálfa þegar þar að kemur að mat er lagt á sérhæfð og vandasöm störf þeirra og niðurstaðan er sú að þeir hafa ekki „staðið sig í stykkinu“. Ef upp um þá kemst eru viðbrögðin þau sömu og venjulegs manns eða prestsins sem varð það á að ruglast á flösku með lýsi og flösku með messuvíni. Afleiðingin var sú að foreldrar sem gengu til altaris með fermingarbörnum sínum skildu ekkert í bragðinu og gubbuðu undir kirkjuveggnum. Presturinn eltir hjörðina og sagði yfir ælunni sér til afsökunar: „Það er auðvelt að vera vitur eftirá en aldrei hefði ég trúað á mig, að ég mundi ruglast á þorskalýsi og þríhelgu blóði. Batnandi manni er best að lifa, ég bið alla presta að stilla saman strengi í því að greina lýsi frá dreyra Frelsarans. 

   Eftir fréttum að dæma hefur hin snjalla Eygló Harðardóttir lýst því yfir á Alþingi í ræðu, að næstum engin opinber stofnun sé undanskilin gagnrýni hvað varðar íbúðalánasjóð, þótt hann hafi fyrir daga hrunsins einungis verið í höndum stjórnmálaafla sem stóðu að því en sungu samt á loforðanótum fyrir nokkrum mánuðum sama sönginn, svo kát og létt þjóðin kaus þau á ný.

   Nú eru nýir tímar á Alþingi með unglingafjölda og Eygló vill að grænjaxlar og gamla liðið læri af reynslunni. Það er óvitlaust á þessu stigi málsins að krefjast varfærni, svo almenningur geri sér grein fyrir að hann kaus fólk sem verður vitrara með hverri nýrri ákvörðun. Til þess að allar takist með alþingissóma og endi á farsælan hátt er brýnt „að ná breiðri samstöðu sem mun nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem framundan er“. Eygló er orðsnjöll, frumleg í hugsun og laus við orðaleppa „og frasa“ í málflutningi. Fyrir bragðið er til mikils mælst af þessari framsóknarkonu. Hvorki verður af henni skafið né á hana logið að hún hefur bein í nefinu og lipra tungu í munninum fyrir neðan það, eins og næstum nafna hennar sem er núna á vegum Sameinuðu þjóðanna að leysa búrkur frá nefi á afgönskum konum til að gera þær sýnilega andlitsdjarfar og hreinlyndar á sama hátt og systurnar í norðrinu. 

Guðbergur Bergsson

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3