Gudbergsstofa 940x250 013

Nýtt ávarp jólakattarins

Ég er orðinn heilsársjólaköttur og segi sem slíkur:

Ég er yfirleitt sammála Kolbúnu Bergþórsdóttur í skrifum hennar í DV. Ég er hrifinn af öllu frá henni, meðal annars því sem hún segir með flissi þegar hún er umsagnardómari á sviði bókmennta í sjónvarpsþættinum Kiljunni. Hann er að mínu jólakattarviti fyrir löngu kominn úr kilinum en klístrað saman með kekkjóttu hveitilími og hangir varla á límingunum.

Ég tala ekki um hvað Kolbrún er betri í DV en Bjarni Benediktsson frá Hofteigi var á sínum tíma í Þjóðviljanum. Hann var bókmenntaslátrari. Aldrei hef ég verið meira sammála skoðunum hennar en í nýlegri grein þar sem hún fer ekki bara á venjulegum kostum heldur einnig listrænum og mannúðlegum í þokkabót. Í greininni stígur hún lengra fram fyrir skjöldu sem verjandi 20170527 01göfugra lista en nokkur hefur gert. Hún segir orðrétt um málverk og listir, einkum verk hollenska málarans Rembrandts í tengslum við breska kvikmynd um hann (hún hefur auðvitað séð hana á netinu; hún virðist liggja öll kvöld í sjónvarpstölvunni):

“Snilldarleg listaverk ættu ekki að fara úr tísku en samt henti það að ekki varð lengur eftirspurn eftir verkum listamannsins. (Hér er átt við Rembrandt.) Þau þóttu of gróf og ljótleiki sömuleiðis of fyrirferðarmikill. Okkur voru sýnd málverk sem þóttu betri en verk Rembrandts og það var vandræðalegt að sjá þær líflausu glansmyndir. Furðulegt hvað samtímamenn geta misreiknað sig illilega í mati í list.

Rembrandt lifði það að verða gjaldþrota, sárafátækur og aleinn. Hann átti svo miklu betra skilið.”

Við að lesa greinina varð ég djúpt snortinn, samúðarvænn, harmi sleginn og reiður, fullur af réttlætiskennd og hugsaði að margir forkólfar í listageiranum hér á landi mættu læra af Kolbrúnu og hefja átak um skilning á list en skora á hólm vernduðu lágmenninguna á föndurstigi í blóðkreppusótt þjóðlífs sem einkennist af þjónkun við það sem á engan skilning skilinn sökum frekju sinnar og tengsla við valdið í listapólitíkinni. Fólk er sent í tröllríðandi bjánaskap á bíennala, með krakkaföndur sitt, og í söngvakeppnir og síðan snýr það heim eins og sérstök tegund af íslenskum fílum sem veifa rananum ímynduðum af því að óskhyggja trjónunnar endaði í fúlum pytti í Feneyjum og Kænugarði.

Kolbrún birtir grein sinni til stuðnings mynd af málverki eftir Rembrandt og kallar: Lucretia Um það bil að deyja. Dáin er Lucretia en lengi lifi Kolbrún. Hún á heiður skilinn fyrir afturvirkandi samúð með málara sem dó árið 1669. Samúð er viss siðferðiskennd, ekki verður því neitað, en afturvirkandi samúð er til lítils, ef ekki tóm hræsni, nema hún veki framtíð og samtíð til umhugsunar um sínar líflausu glansmyndir og tímaskekkjur.

Guðbergur Bergsson

 

 

Pistill: Forseti Íslands og ókyrðin

2016-06-17 15.10.33 02-800Um þessar mundir er ókyrrð í lofti stjórnmálanna, bæði í heiminum og hjá okkur, sem stöndum andspænis forsetakosningum. Vegna ókyrrðarinnar er nauðsynlegt að festa sætisólarnar uns kyrrð kemst á aftur. Til þess að svo megi verða hér á landi er einungis hægt að kjósa til forseta Íslands mann með reynslu og þekkingu á stjórn og stjórnmálum, Davíð Oddson. Aðra frambjóðendur skortir reynslu en þeir eiga nóg af góðvild, sem nægir ekki í alhliða ókyrrð. Með því að tryggja stöðugleika þurfa hægri og vinstri öflin í landinu að stilla lund og ólund sína og sameinast, öfl sem eru í senn andstæð og samstæð og þar af leiðandi félagslega frjósöm, og kjósa Davíð Oddsson eina forsetaframbjóðandann með reynslu og þroska.

Góðvild er góð hjúkrun en gagnast lítið í yfirstjórn sjúkrahússins. Þar þarf þekkingu og reynslu. Svipað er með samfélagið. Gleymið flokkadrætti. Sameinið fortíð og framtíð landsins, kjósið reynslu Davíðs Oddsonar á Bessastaði. 

Guðbergur Bergsson

 

Pistill: Forsetafrúin

Forsetafrúin er heimsborgaraleg og með heimalandsmóti í senn. Hún veit hvað við á hverju sinni. Ef hún kemur opinberlega fram með forsetanum erlendis er hún hlaðin gimsteinum. Á heimavelli er hún aftur á móti ýmist í gærujakka eða lopapeysu. Þannig kemur hún til móts við alþýðu með „búkonueinkennum“ í klæðaburði. En til að fullkomna stílinn þyrfti hún eiginlega að halda á fjósaskóflu eins og veldissprota þess sem mokar samviskusamlega framsóknarflórinn. Forsetinn er aftur á móti hvarvetna með sama sniði, eins og nýkominn úr herraklippingu.

Guðbergur Bergsson

Ytri fita holdsins er vond en innri fita andans varla skárri

Ytri fita holdsins er vond en innri fita andans varla skárri. En ein er sú fita sem bræðir fátt með sér, ef hún verkar til útborðs, bálreið gegn líkamsfitunni. Þetta er vitsmunafitan. Hún tengist oft rithöfundarengi á fituríkum sinavef á kviði kennsluhvala sem blása á boldangsmeyjar á Facebók sinni á  háskólabókmenntahvalaslóð.

Guðbergur Bergsson

Pistill: Í pípum daganna

Í pípum daganna

Það er óhætt að segja að ýmislegt fróðlegt og eggjandi hafi verið í samfélagspípunum íslensku að undanförnu. Jafnvel þeir sem horfa aldrei á Sjónvarp geta ekki annað en hafa heyrt ávæning af gaulinu eða frétt til dæmis af hinum fræknu Reykjavíkurdætrum og miklum og frjóum umræðum sem þær vöktu í þætti Gísla Marteins. Dæturnar eiga að hafa farið um syngjandi og hrist gervilim spenntan í kvenlegt klofið í þvílíkri spennu að ein helsta og djarfasta leikkona landsins sem var líka í þættinum hljóp úr settinu og mun hafa gubbað í plastpoka frá Bónus, svo mikið var henni um lætin í dætrunum. Nú vita vitibornir að konur eru í eðli sínu tittlingaóðar en hafa fram að þessu leynt æði sínu innan feðraveldisins sem er með einokun á folanum. En femínisminn, sem er kominn að falli, hefur leyst höftin þannig að djörfustu meyjar og skólastúlkur veifa innrætinu við hvert tækifæri: tittlingaæðinu í ýmsum myndum. Ekki eru allir landsmenn á einu máli um gildi frelsisins en mikilhæf kona sem telur sig til prests fagnar og lofsyngur frelsun naflans, geirvörtunnar og druslunnar og ber auk þess umhyggju fyrir hommum, að þeir kunni að einangrast og hverfa inn á jaðarinn og aftur inn í siðsemisskápinn vegna innlimunar einhverra samtaka BDSM-ara í Samtökin 78. Um nýja flóttafólkið undan fordómum samfélagsins er sagt að það kunni ekki að greina á milli kynóra og kynlífs. Í tengslum við það er góð spurning: Ríða menn og konur eins og rófulausir hundar, alltaf í raunveruleikanum með kynfærunum einum og beitingu þeirra af alefli án orsakatengsla holds- og heilastarfsemi? Kannski er það hægt á Akureyri en var auðsæilega ekki þannig í Paradís með Adam og Evu í eplaleik. Hvað sem fínum trúar og  tilfinningum líður á himnum og jörð er víst að hefðu Reykjavíkurdætur viljað hafa sprengipúður í  sjónvarpsþættinum hefðu þær rekið gervitittlinginn rakleitt upp í hinn brosmilda munnvíða Gísla Martein og hrópaðu: „Tottaðu Gísli, tottaðu gandinn!“ og látið hann totta og kreist í lokin gervipunginn og sprautað upp í hann þáttanæringu sem hann þarf víst orðið á að halda. Þættir hans eru sagðir vera komnir með ellimörk, í þá komin viss blöðruhálseinkenni karlmennskunnar: Annað hvort komi úr kirtlinum ömurlegur dropi liðinna dáða drengsins eða skyndileg óstöðvandi kjaftavaðalsspræna ellibelgsins.

Guðbergur Bergsson

 

Styrktaraðilar

EFTIRTALDIR AÐILAR KOMU AÐ UNDIRBÚNINGI OG STOFNUN GUÐBERGSSTOFU EÐA STYRKTU VERKEFNIÐ MEÐ EINUM EÐA ÖÐRUM HÆTTI:

Logo web 01 transparent-bgr2   Logo web 01 transparent-bgr   Logo web 01 transparent-bgr4   ARTPRO Logo 260x100   Logo web 01 transparent-bgr3